Dagbjartur og Valdi með fyrstu mörkin sín

Fótbolti

KA mætti Tindastól í öðrum leik liðsins í Kjarnafæðimótinu í Boganum í gær en KA liðið hafði unnið 6-0 sigur á Þór 2 í fyrsta leik sínum og mættu strákarnir af sama krafti í leik gærdagsins.

Þorri Mar Þórisson gerði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu og sex mínútum síðar hafði Ívar Örn Árnason komið okkar liði í 2-0. Húsvíkingarnir Ásgeir Sigurgeirsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson bættu við sitthvoru markinu fyrir hlé og var staðan því 4-0 í hálfleik.

Rétt eins og í fyrsta leiknum á mótinu gerði Hallgrímur Jónasson þjálfari þó nokkrar skiptingar í leiknum en menn héldu áfram að þjarma að Stólunum og Þorri Mar gerði sitt annað mark í upphafi síðari hálfleiks og staðan því orðin 5-0.

Ívar Örn gat ekki verið minni maður og gerði sitt annað mark á 69. mínútu. Þá var röðin komin að ungu kynslóðinni en Dagbjartur Búi Davíðsson gerði sitt fyrsta meistaraflokksmark í sínum fyrsta leik og það á sinni fyrstu mínútu geri aðrir betur!

Valdimar Logi Sævarsson gerði einnig sitt fyrsta meistaraflokksmark er hann skoraði mark beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma og 8-0 stórsigur niðurstaðan. Þeir Dagbjartur og Valdimar eru báðir aðeins 16 ára gamlir en sýndu það heldur betur að þeir eru klárir í að stíga næsta skref og verður afar gaman að fylgjast áfram með framgöngu þeirra.

Annar stórsigur raunin og afar gaman að sjá hve vel spilandi strákarnir eru nú þegar skammt er liðið á undirbúningstímabilið. Það er líka ákaflega jákvætt að sjá menn halda dampi þó staðan sé orðin góð og að fá góða æfingu útúr leikjunum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is