Allan og Jóhann framlengja

Handbolti
Allan og Jóhann framlengja
Haddur og Allan handsala nýja samninginn

Hornamennirnir Allan Norðberg og Jóhann Geir Sævarsson skrifuðu báðir undir nýjan samning við handknattleiksdeild KA og eru nú samningsbundnir félaginu næstu tvö árin. Það er innan við mánuður í fyrsta leik vetrarins og afar jákvætt að þeir Allan og Jói verði áfram innan okkar raða.

Allan gekk í raðir KA fyrir tímabilið 2018-2019 og hefur í kjölfarið leikið 93 leiki fyrir KA. Allan sem er örvhentur Færeyskur landsliðsmaður hefur að mestu leikið í hægra horni en sýndi og sannaði á síðustu leiktíð að hann getur vel leyst hægri skyttustöðuna einnig og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á síðustu leiktíð.

Jóhann Geir er 23 ára gamall vinstri hornamaður en hann gekk í raðir KA fyrir tímabilið 2020-2021 en hann er uppalinn í yngriflokkum KA. Jóhann hefur leikið 53 leiki fyrir KA og á framtíðina svo sannarlega fyrir sér enda öflugur og metnaðarfullur leikmaður.

Það eru frábærar fréttir að halda þessum mögnuðu köppum innan okkar raða, ekki nóg með að þeir séu báðir öflugir leikmenn þá eru þeir líka með stórt KA hjarta. Þessir samningar eru skýr skilaboð að stefnan hjá félaginu er áfram að byggja á góðum liðsanda og flottri stemningu, hvort sem er innan eða í kringum liðið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is