Tilnefningar til Íþróttamanns KA 2012

Almennt

Tilefningar til Íþróttamanns KA fyrir árið 2012 liggja nú fyrir og eru sem fyrr tilnefningar frá öllum deildum félagsins sem störfuðu á árinu. Fjórir eru því tilnefndir - frá handknattleiks-, knattspyrnu-, blak- og júdódeild. Íþróttamaður KA verður útnefndur núna í janúar Tilnefndir eru:


Íþróttamaður blakdeildar 2012

Alda Ólína Arnarsdóttir:  
Alda Ólína er fædd 19. október 1995. Alda hefur lagt stund á blakíþróttina frá unga aldri og náð mjög góðum árangri. Hún spilar nú með 2. flokki KA og meistaraflokki kvenna og hefur verið einn af lykilmönnum liðanna á árinu. Á leiktímabilinu 2011-2012 varð hún Íslandsmeistari bæði með 2. og 3. flokki. Hún var valin í U-17 og U-19 landsliðin sem léku á Norðurlandamótum í Finnlandi og Noregi sl. haust. Einnig var hún tilnefnd sem efnilegasti leikmaður Mikasadeildarinnar á lokahófi BLÍ s.l. vor.

Alda Ólína er ekki bara góður leikmaður heldur hefur hún sýnt að hún hefur til að bera þann persónuleika sem einkennir góðan íþróttamann. Ástundun hennar er til fyrirmyndar; hún mætir stundvíslega á æfingar og leggur sig alla fram við æfingar og er hvetjandi fyrir meðspilara sína.


Íþróttamaður handknattleiksdeildar 2012
Daníel Matthíasson:  

Daníel spilaði með 3. flokki KA tímbilið 2011-2012. Hann var valinn í U-18 landslið Íslands sem  spilaði í undankeppni EM í Tyrklandi  13.-15. apríl 2012 og hefur spilað með yngri landsliðum U-16 síðustu ár.
Daníel hefur æft með yngri flokkum KA síðan í 6. flokki, en æfir núna með 2. flokki Akureyri handboltafélags.  Hann þjálfar 5. flokk kk hjá KA.
Daníel  stundar handbolta af miklum áhuga og er góð fyrirmynd fyrir yngri krakka.


Íþróttamaður knattspyrnudeildar 2012
Gunnar Valur Gunnarsson: 

Gunnar Valur var útnefndur Knattspyrnumaður ársins í lokahófi knattspyrnudeildar KA sl. haust. Gunnar Valur er fæddur árið 1982. Hann æfði og spilaði með KA frá og með 5. flokki og á því rætur sínar í félaginu. Hann spilaði hins vegar aldrei með meistaraflokki félagsins og hafði félagaskipti árið 2003 í Fjölni, þar sem hann spilaði þar til hann skipti í sitt gamla uppeldisfélag haustið 2011. Gunnar Valur var fyrirliði Fjölnis í fjögur keppnistímabil og tók síðan við fyrirliðabandinu í KA af Elmari Dan Sigþórssyni þegar hann meiddist illa fyrripart sl. sumars.

Gunnar Valur spilaði alla 22 leiki KA í 1. deildinni sl. sumar í hjarta varnarinnar og auk þess þrjá leiki í Borgunarbikarnum. Hann er ódrepandi baráttujaxl sem aldrei gefur tommu eftir, sannur fyrirliði sem miðlar af reynslu sinni og dugnaði til yngri leikmanna og drífur liðsfélaga sína með sér, jafnt innan vallar sem utan.


Íþróttamaður júdódeildar 2012
Helga Hansdóttir: 

Helga er Íslandsmeistari 17-19 ára og í liðakeppni 17-19 ára pilta.  Það var reyndar söguleg keppni vegna þess að undanþága var veitt svo að hún gæti keppt með strákunum. Þau voru bara 3 í liðinu í staðinn fyrir 5 og byrjuðu því alltaf 2-0 undir. En þau unnu allra sínar viðureignir 3-2, Helga rúllaði strákunum upp.  Þjálfarar hinna liðanna voru hinir fúlustu í mótslok og töldu að þeir hefðu látið leika á sig með því að samþykkja Helgu. Helga hreppti  4. sæti á Norðurlandamótinu. Hún sleit hins vegar liðband og gat ekki haldið áfram keppni.  Hún var því úr leik út árið en árangurinn fram að því engu að síður góður.

 

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband