Flýtilyklar
Þór/KA með frábæran sigur á Stjörnunni
Íslandsmeistarar Þórs/KA tóku í kvöld á móti Stjörnunni í lokaleik fyrri umferðar Pepsi deildar kvenna. Þriðja leikinn í röð voru stelpurnar að leika innbyrðisleik í toppbaráttunni og voru ansi mikilvæg stig í boði fyrir bæði lið.
Þór/KA 3 - 1 Stjarnan
1-0 Ariana Calderon ('22)
2-0 Anna Rakel Pétursdóttir ('49)
3-0 Sandra María Jessen ('59)
3-1 Anna María Baldursdóttir ('76)
Leikurinn fór fjörlega af stað en gestirnir urðu fyrir áfalli strax í byrjun þegar Harpa Þorsteinsdóttir þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Hvort þetta hafi slegið gestina útaf laginu skal ég ekki segja en í kjölfarið tók Þór/KA völdin á vellinum og þjarmaði að marki Stjörnunnar.
Á 22. mínútu kom fyrsta markið þegar Ariana Calderon skallaði boltann í markið eftir mikið klafs í teignum eftir hornspyrnu. Markið hafði legið í loftinu en Sandra María Jessen hafði skömmu áður verið í góðu færi en Stjörnustúlkur náðu að koma skoti hennar frá á síðustu stundu.
Eins og vill oft verða þá róaðist leikurinn í kjölfarið, hið sterka lið Stjörnunnar fann fáar opnanir á vörn okkar liðs og helsta hættan frá þeim voru skot töluvert frá teignum. Staðan var því 1-0 í hálfleik og útlitið frekar gott. Þó var alveg klárt að gestirnir myndu koma með áhlaup enda mátti Stjörnuliðið alls ekki tapa þessum leik til að halda einhverju lífi í toppbaráttu sinni.
Það var því ansi kærkomið þegar Anna Rakel Pétursdóttir tvöfaldaði forystuna strax í upphafi síðari hálfleiks, Sandra Mayor kom sér listilega inn í teig, vippaði boltanum fyrir markið og Anna Rakel skallaði boltann af öryggi í netið.
Stelpurnar héldu áfram að sækja af krafti eftir markið og sjálfstraustið greinilega í botni enda staðan góð. Það kom því ekki á óvart þegar þriðja markið leit dagsins ljós á 59. mínútu, Sandra Mayor kom með flotta sendingu innfyrir vörn Stjörnunnar og fyrirliðinn Sandra María Jessen sýndi mikla yfirvegun þegar hún kom boltanum í netið.
Gestirnir fengu svo líflínu þegar kortér lifði leiks þegar Anna María Baldursdóttir þrumaði boltanum að markinu úr aukaspyrnu frá miðju. Johanna Henriksson misreiknaði boltann og missti hann yfir sig. Stjörnustúlkur reyndu svo hvað þær gátu til að ná inn marki og setja pressu á okkar lið en sem betur fer tókst það ekki en boltinn fór til að mynda tvívegis í slánna á marki okkar liðs.
Niðurstaðan því frábær 3-1 sigur, þrjú stig í hús sem og hefnd fyrir tapið í bikarnum fyrr í sumar. Seinna í kvöld hófst leikur Breiðabliks og Vals og kemur því í ljós síðar í kvöld hvort Þór/KA verði á toppi deildarinnar eða ekki nú þegar deildin er hálfnuð.
Eftir gríðarlega erfitt leikjaprógram þá taka nú við leikir við liðin í neðri hlutanum en það er alveg ljóst að stelpurnar þurfa áfram að vera á tánum til að sækja Íslandsmeistaratitilinn á ný. Toppbaráttan er gríðarlega hörð og mun hvert einasta stig telja gríðarlega mikið þegar upp verður staðið.