Þór/KA gjörsigraði Grindavík öðru sinni

Fótbolti
Þór/KA gjörsigraði Grindavík öðru sinni
Frábær frammistaða hjá stelpunum í kvöld

Íslandsmeistarar Þórs/KA tóku á móti Grindavík á Þórsvelli í kvöld í fyrsta leik síðari umferðar Pepsi deildar kvenna. Þór/KA vann fyrri leik liðanna 0-5 í Grindavík en síðan þá höfðu Grindvíkingar náð nokrum góðum úrslitum og bjuggust því flestir við krefjandi leik.

Þór/KA 5 - 0 Grindavík
1-0 Anna Rakel Pétursdóttir ('43)
2-0 Sandra María Jessen ('48)
3-0 Lára Einarsdóttir ('57)
4-0 Sandra María Jessen ('65)
5-0 Sandra Mayor ('89)

Strax frá fyrstu mínútu var ljóst að stelpurnar ætluðu ekki að vanmeta gestina og tóku strax völdin. Þrátt fyrir mikla pressu þá þurfti liðið að bíða þó nokkuð eftir markinu en það kom loksins á 43. mínútu þegar Anna Rakel Pétursdóttir þrumaði boltanum í netið eftir darraðardans í teignum. Markið kom á frábærum tíma og ljóst að hálfleiksræða Donna varð önnur í kjölfarið.

Ekki leið á löngu í síðari hálfleik uns staðan var orðin 2-0 en Sandra María Jessen skallaði fyrirgjöf Láru Einarsdóttur laglega í netið og ef einhver var í vafa hvar sigurinn myndi enda í hálfleik þá gátu menn hætt þeim vangaveltum eftir mark Söndru.

Leikur kattarins að músinni á vel við leik kvöldsins og á 57. mínútu var staðan orðin 3-0 þegar Lára potaði boltanum yfir línuna eftir barning í teignum uppúr hornspyrnu. Skömmu síðar gerði Sandra María sitt annað mark eftir stórkostlega sendingu frá Önnu Rakel inn fyrir og Sandra klárar einfaldlega svona færi.

Að lokum þá skoraði Borgarstjórinn sjálfur, hún Sandra Mayor, lokamarkið og 5-0 stórsigur staðreynd. Stelpurnar sýndu frábæra frammistöðu og greinilegt að hungrið eftir því að sækja Íslandsmeistaratitilinn er svo sannarlega til staðar, algjörlega til fyrirmyndar að venju stelpurnar okkar!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband