Svekkjandi tap á Valsvelli

Fótbolti
Svekkjandi tap á Valsvelli
Almarr var öflugur (mynd: Hafliði Breiðfjörð)

Topplið Vals lagði KA í leik liðanna í 8. umferð Pepsi deildar karla í gær. Eina mark leiksins var sjálfsmark sem kom strax í upphafi leiks.

Valur 1 - 0 KA
1-0 Darko Bulatovic ('2, sjálfsmark)


Umfjöllun RÚV um leikinn þar sem meðal annars er rætt við Tufa

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Aleksandar, Callum, Darko, Almarr, Ólafur Aron, Ásgeir, Hallgrímur Mar (F), Emil og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Baldvin, Ívar Örn, Daníel, Bjarni, Bjarki og Frosti.

Skiptingar:

Ólafur Aron út – Daníel inn (’67)
Hrannar út – Bjarki inn (’85)

Aðeins var rétt rúm mínúta liðin af leiknum þegar boltinn lá í markinu en heimamenn fengu hornspyrnu og Darko Bulatovic varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net. Draumabyrjun Valsmanna sem hafa verið feykiöflugir á heimavelli.

Þrátt fyrir þessa erfiðu byrjun kom KA liðið sér strax inn í leikinn og héldu góðri pressu. Frábær stuðningur úr stúkunni gaf liðinu byr undir báða vængi og er það algjörlega ómetanlegt hve vel liðið er stutt á útivelli.

Ásgeir Sigurgeirsson kom sér í úrvalsfæri þegar hálfleikurinn var hálfnaður en Anton Ari í marki Vals missti boltann og Ásgeir náði honum. Eftir að hafa leikið boltanum til hliðar fékk Ásgeir högg aftan í fótinn sem kom í veg fyrir að hann næði skoti á opið markið. Hinsvegar dæmdi dómari leiksins ekkert og verður að viðurkennast að þarna sluppu Valsarar með skrekkinn.

Á 36. mínútu fékk Ólafur Aron Pétursson úrvalsfæri í teignum en Anton Ari sá við honum, Callum Williams náði frákastinu og eftir smá barning náði hann skoti á markið en Sigurður Egill varnarmaður var vel á verði og sparkaði boltanum frá á línu.

Staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks, KA hafði átt flotta spretti og var óheppið með að vera undir. Það kom því kannski aðeins á óvart hve rólega síðari hálfleikur fór af stað en eftir rúmar 10 mínútur fór okkar lið að sækja betur.

Á 61. mínútu átti Emil Lyng góðan sprett sem endaði með því að Bjarni Ólafur Eiríksson klippti hann niður fyrir utan teig og uppskar sitt seinna gula spjald. KA því einum fleiri og enn um hálftími eftir. Ekki tókst hinsvegar að koma aukaspyrnunni á markið.

Það sem eftir lifði leiks reyndi KA að finna jöfnunarmarkið en Valsarar vörðust vel og héldu út. Valsarinn Kristinn Ingi Halldórsson fékk svo dauðafæri í uppbótartíma þegar KA liðið hafði misst boltann og flestir leikmenn framarlega á vellinum en skot hans var framhjá.

Niðurstaðan var því 1-0 tap og menn eðlilega svekktir með þau úrslit. KA liðið sýndi fína frammistöðu gegn toppliðinu og var greinilegt að Tufa hafði sett leikinn vel upp. Liðið hefur nú ekki skorað í tveimur leikjum í röð og ljóst að menn þurfa aðeins að stoppa og ná upp betri spilamennsku fyrir næsta leik.

Nivea KA-maður leiksins: Almarr Ormarsson (Baráttan skein úr augum Almarrs sem gaf sig allan í leikinn. Gerði allt hvað hann gat í leiknum og var hrein unun að fylgjast með kraftinum í honum.)

Næsti leikur er heimaleikur gegn KR á laugardaginn og er nokkuð ljóst að KA liðið þarf að fara að skora aftur ef við ætlum að halda okkur í efri hluta deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband