Flýtilyklar
Súrt tap KA gegn Haukum U
KA mætti Ungmennaliði Hauka í gær í Grill 66 deild karla. Fyrirfram var vitað að leikurinn yrði erfiður enda Haukarnir verið afar sterkir á heimavelli í vetur, raunar ekki tapað þar leik og sitja í þriðja sæti deildarinnar. Haukarnir byrjuðu af krafti og komust í 2-0 áður en KA menn vöknuðu. Í kjölfarið kom fínn sprettur og KA náði tveggja marka forystu 3-5.
Því miður datt botninn úr leik liðsins í kjölfarið, Haukar skoruðu næstu fjögur mörk leiksins og náðu fjögurra marka forskoti 10-6 í kjölfarið. Í hálfleik var forysta Hauka þrjú mörk, 12-9.
Leikur KA liðsins var einfaldlega arfaslakur, sóknarleikurinn hægur auk þess sem markvörður Hauka, Andri Sigmarsson Scheving varði eins og berserkur.
Seinni hálfleikurinn hófst með góðum spretti KA manna, Áki Egilsnes skoraði fyrstu þrjú mörk liðsins, munurinn eitt mark, 13-12 og útlit fyrir hörkuleik. En því miður fór allt í sama horfið, Haukar fundu taktinn á ný og juku forskotið í 16-12 og gerðu í kjölfarið út um leikinn með fimm mörkum í röð, staðan orðin ískyggileg, 21-13.
Það sem eftir lifði leiks tókst KA reyndar að minnka muninn lítillega, niður í fjögur mörk, 23-19 en Haukar skoruðu síðasta mark leiksins og tryggðu sér þar með fimm marka sigur, 24-19.
Allt of mikið fór úrskeiðis í þessum leik, fjölmörg dauðafæri fóru í súginn og margir tapaðir boltar, einhvernveginn algjört stemmingsleysi í liðinu.
Mörk KA: Andri Snær Stefánsson 5 (1 úr víti), Áki Egilsens 4, Einar Logi Friðjónsson 3, Sigþór Gunnar Jónsson 3, Dagur Gautason 2, Heimir Örn Árnason 1 og Sigþór Árni Heimisson 1 mark. Jovan Kukobat varði 12 skot í markinu, þar af þó nokkur úr opnum færum.
Mörk Hauka U: Hallur Kristinn Þorsteinsson 6, Hjörtur Ingi Halldórsson 5, Aron Gauti Óskarsson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Jason Guðnason 2, Gunnar Dan Hlynsson 1, Jörgen Freyr Ólafsson 1 og Þórarinn Leví Traustason 1 mark.,
Trúlega var þetta slakasti leikur KA liðsins á tímabilinu og ljóst að strákarnir þurfa að gera miklu betur í næsta leik, sem er einmitt Akureyrarslagur en þeir mæta Akureyri Handboltafélagi í Íþróttahöllinni þann 13. febrúar. Akureyri nýtti einmitt vandræðagang KA liðsins og náði toppsæti deildarinnar með öruggum sigri á Mílunni um helgina.