Rándýrt tap Þórs/KA á KR-vellinum

Fótbolti
Rándýrt tap Þórs/KA á KR-vellinum
Stelpurnar urðu af mikilvægum stigum í kvöld

Þór/KA sótti KR heim í 13. umferð Pepsi deildar kvenna í kvöld en ansi mikið var undir hjá báðum liðum í leiknum en heimastúlkur eru í harðri botnbaráttu á sama tíma og okkar lið er í sjálfri titilbaráttunni.

KR 2 - 1 Þór/KA
1-0 Tijana Krstic ('16)
2-0 Mia Gunter ('69)
2-1 Sandra Mayor ('70)

Bæði lið hófu leikinn af þó nokkrum krafti og reyndu hvað þau gátu til að ná forystunni. Það var KR sem varð fyrr til að koma boltanum í netið og það var sannkallað furðumark. Tijana Krstic kom með fyrirgjöf sem misheppnaðist en varð hinsvegar að flottu skoti sem fór yfir Stephanie Bukovec í markinu og staðan orðin 1-0.

Stelpurnar reyndu hvað þær gátu til að svara fyrir markið strax en KR liðið varðist vel með Katríni Ómarsdóttur í broddi fylkingar. Ekki kom markið í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 er liðin gengu til búningsherbergja. Það var ljóst að stelpurnar þyrftu að pressa vel á KR liðið í síðari hálfleiknum og sækja af meiri hraða.

Sandra Mayor hafði lítið sést í fyrri hálfleik en í upphafi þess síðari gerði hún vel í að koma sér í skotfæri rétt fyrir utan teiginn en Ingibjörg í marki KR varði vel frá henni. Í kjölfarið sóttu stelpurnar án afláts og virtist bara spurning hvenær stíflan myndi bresta.

Það kom því virkilega á óvart þegar Mia Gunter tvöfaldaði forystuna á 69. mínútu með skoti utan af velli. Stephanie í marki Þórs/KA misreiknaði boltann og það er dýrt sem markvörður og staðan orðin ansi erfið.

En nú tókst stelpunum að svara fyrir sig því strax í kjölfarið þegar markvörður KR gerði mistök, Ariana Calderon náði boltanum, renndi honum á Söndru Mayor sem skoraði af öryggi. Gríðarlega mikilvægt mark og enn 20 mínútur eftir af leiknum.

Það sem eftir lifði leiks sótti Þór/KA af gríðarlegum krafti en skipulag og barátta KR liðsins gerði liðinu lífið leitt og eftir alla pressuna sem og fjölmörg horn þá kom jöfnunarmarkið aldrei.

Niðurstaðan því 2-1 tap sem verður því miður rándýrt í lok móts. Nú á Breiðablik leik til góða auk þess sem liðið er stigi á undan Þór/KA. Þetta er sannarlega ekki búið en það verður fínt fyrir stelpurnar að tækla meistaradeildina á næstunni og gleyma aðeins þessu sára tapi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband