KA vann aftur og er í lykilstöðu

Handbolti
KA vann aftur og er í lykilstöðu
Sigþór Gunnar var flottur í kvöld (mynd: Hannes)

KA er komið í lykilstöðu í einvígi sínu gegn HK um laust sæti í Olís deild karla í handboltanum eftir 20-25 sigur í öðrum leik liðanna í Digranesi í kvöld. KA leiðir því einvígið 2-0 og þarf aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sæti í deild þeirra bestu að ári.

Það var ljóst fyrir leikinn að lið HK þyrfti sigur enda erfitt að vera í þeirri stöðu að þurfa að sækja tvo sigra í KA-Heimilið. KA liðið fór ekki nægilega vel af stað og gerði nokkur mistök og heimamenn í HK leiddu leikinn lengst af í fyrri hálfleik.

Þegar um 20 mínútur voru búnar af fyrri hálfleiknum þá kom góður kafli hjá okkar liði og strákarnir tóku forystuna og gott betur og náðu þriggja marka forskoti. HK liðið var þó ekki af baki dottið og skoraði síðustu tvö mörk hálfleiksins og staðan því 10-11 fyrir KA þegar flautað var til hálfleiks.

Tímalína fyrri hálfleiks

Einhverjir spekingar voru á því að meðbyrinn inn í síðari hálfleikinn væri HK megin en svo var alls ekki og voru fyrstu 5 mörk síðari hálfleiks gul og glöð, staðan var því skyndilega orðin 10-16. KA komið í kjörstöðu en liðið hefur í nokkur skipti í vetur glutrað góðri stöðu, það var þó eins og leikmenn væru búnir að læra af reynslunni.

HK liðið reyndi nefnilega hvað það gat til að minnka muninn, þeim tókst að minnka muninn niður í 3 mörk en lengst af var forskotið 4-5 mörk og KA sigldi á endanum mjög sannfærandi 20-25 sigri. Gleðin var mikil í leikslok enda liðið komið í algjöra lykilstöðu í einvígi liðanna og getur klárað dæmið í KA-Heimilinu á fimmtudaginn klukkan 19:00.

Tímalína seinni hálfleiks

Sigþór Gunnar Jónsson var markahæstur með 5 mörk og var frábært að sjá sjálfstraustið hjá Sigþóri í dag. Andri Snær Stefánsson og Dagur Gautason gerðu 4, Sigþór Árni Heimisson og Ólafur Jóhann Magnússon gerðu 3, Heimir Örn Árnason og Jón Heiðar Sigurðsson gerðu 2 mörk og þeir Áki Egilsnes og Einar Birgir Stefánsson gerðu 1 mark hvor. Jovan Kukobat varði 18 skot í marki KA.

Tölfræði leiksins

Það var virkilega gaman að sjá hve margir KA menn lögðu leið sína í Digranesið og var liðið vel stutt áfram af okkar frábæra fólki. Nokkuð stór hópur kom meira að segja frá Akureyri á leikinn, geri aðrir betur!

KA-TV mætti í Digranesið og sýndi beint frá leiknum, útsendinguna má sjá í spilaranum hér að neðan.

Nú skorum við einfaldlega á alla KA menn að mæta í KA-Heimilið á fimmtudaginn og sjá til þess að strákarnir klári dæmið. Þetta lítur vel út en það er enn verk að vinna og til að þetta gangi upp þurfum við á ykkur að halda!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband