KA tapaði í Vestmannaeyjum

Handbolti
KA tapaði í Vestmannaeyjum
Áki Egilsnes með fimm mörk og rautt spjald

Seinni umferð Grill 66 deildar karla hófst á föstudagskvöldið þegar KA sótti heim Ungmennalið ÍBV. Eins og menn muna þá var ekki lítil dramatík þegar liðin mættust í fyrstu umferðinni þar sem KA skoraði sigurmark leiksins á síðustu sekúndu leiksins.

Líkt og í fyrri leiknum var ÍBV liðið sprækt í upphafi leiks og leiddi leikinn framan af en með góðum endaspretti og þrem síðustu mörkum fyrri hálfleiks komst KA yfir og leiddi 9-10 í hálfleik. Sóknarleikurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir og mörg upplögð færi fóru forgörðum.

Seinni hálfleikurinn fór þokkalega af stað en eftir rúmlega þriggja mínútna leik fékk Áki Egilsnes beint rautt spjald (og þar með einnig blátt spjald) og var það verulega harður dómur. Vissulega tilefni til brottvísunar en ákvörðun dómaranna glórulaus ekki síst í ljósi þess að örfáum mínútum seinna braut leikmaður ÍBV gróflega á Degi Gautasyni í hraðaupphlaupi en fékk ekki einu sinni tiltal fyrir, þvert á móti fékk bekkurinn hjá KA gult spjald fyrir athugasemdir.

Afar lítið var skorað lengi framan af seinni hálfleik en KA liðið þó heldur duglegra og hafði þriggja marka forystu, 11-14 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Þá misstu menn hausinn og heimamenn gengu á lagið og náðu forystu með fjórum mökum í röð. Lokamínúturnar urðu æsispennandi en ÍBV náði að sigla eins marks sigri í höfn, 18-17. Fyrstu töpuðu stig KA manna í deildinni og satt að segja var leikur liðsins engan vegin sannfærandi. Vissulega áfall að missa Áka af velli en hann hafði skorað fimm mörk þegar þar var komið sögu.

Mörk KA: Áki Egilsnes 5, Sigþór Gunnar Jónsson 5, Ólafur Jóhann Magnússon 4, Dagur Gautason 1, Einar Birgir Stefánsson 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1.

Mörk ÍBV U: Daníel Örn Griffin 4, Friðrik Hólm Jónsson 4, Ágúst Emil Grétarsson 2, Bergvin Haraldsson 2, Darri Viktor Gylfason 2, Óliver Daðason 2, Brynjar Karl Óskarsson 1 og Óliver Magnússon 1.

Þar með er að skella á hlé á Grill 66 deildinni og ekki leikið aftur fyrr en undir lok janúar. Fyrsti leikur KA verður heimaleikur gegn Mílunni og verður sá leikur laugardaginn 27. janúar. KA er því á toppi deildarinnar með 18 stig eftir tíu leiki, stigi á undan Akureyri. Þar á eftir koma Haukar U með 13 stig en HK og Þróttur með 12 stig, öll þessi lið eftir tíu leiki.

Næsta verkefni KA liðsins er þó heimaleikur gegn Olís deildarliði Selfoss en liðin mætast í KA heimilinu fimmtudaginn 14. desember klukkan 19:00.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband