KA Íslandsmeistari þriðja árið í röð!

Blak

KA er Íslandsmeistari í blaki kvenna þriðja árið í röð eftir stórkostlegan 2-3 endurkomusigur á liði Aftureldingar í Mosfellsbæ. Um var að ræða fjórða leik liðanna og leiddi KA einvígið 2-1 fyrir leik dagsins.

Ekki byrjaði leikurinn þó að óskum og vann Afturelding fyrstu tvær hrinur leiksins, 27-25 og 25-15. Staðan var því orðin erfið fyrir þriðju hrinu en stelpurnar okkar eru heldur betur þekktar fyrir alvöru karakter og þær sneru leiknum sér ívil. Þær unnu þriðju hrinu eftir upphækkun 25-27 og loks knúðu þær fram oddahrinu með 22-25 sigri í fjórðu hrinu.

Eftir spennu í upphafi oddahrinunnar keyrðu stelpurnar svo yfir lið Aftureldingar og unnu að lokum afar sannfærandi 8-15 sigur og þar með 2-3 sigur samtals. Annan leikinn í röð komu stelpurnar til baka eftir að hafa lent 0-2 undir og vinna sigur, sem er ótrúlegt!

KA er því Íslandsmeistari í blaki kvenna þriðja árið í röð og samtals í fjórða skiptið. Að auki eru stelpurnar Deildarmeistarar og verður að gefa liðinu gríðarlegt hrós fyrir stórkostlegt afrek í vetur.

Ekki má gleyma því að töluverðar breytingar urðu á liðinu frá síðustu leiktíð og hafa ungir og efnilegir leikmenn fengið stór hlutverk í vetur. Þá má ekki gleyma því að þær systur Helena Kristín og Heiða Elísabet Gunnarsdætur þurftu að hætta að spila á miðju tímabili vegna barnsburðar en báðar voru þær í lykilhlutverki í liðinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband