Flottur útisigur KA/Þór gegn FH í dag

Handbolti
Flottur útisigur KA/Þór gegn FH í dag
Aldís Ásta Heimisdóttir var öflug í dag

Stelpurnar í KA/Þór halda áfram á sigurbraut en í dag unnu þær sterkan 24-32 útisigur á FH. Markvörðurinn sterki, Sunna Guðrún Pétursdóttir var ekki í hóp í dag en í hennar stað voru það Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir og Margrét Einarsdóttir sem sáu um markvörsluna.

KA/Þór leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 13-16. Þær litu síðan aldrei um öxl í seinni hálfleiknum og unnu að lokum öruggan átta marka sigur, 24-32 eins og áður segir.

Mörk KA/Þór: Martha Hermannsdóttir 9, Aldís Ásta Heimisdóttir 6, Katrín Vilhjálmsdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Steinunn Guðjónsdóttir 3, Ásdís Sigurðardóttir 2, Auður Brynja Sölvadóttir 1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1 og Ólöf Marín Hlynsdóttir 1 mark.

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 10, Fanney Þóra Þórsdóttir 7, Birna Íris Helgadóttir 3, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 2, Arndís Sara Þórsdóttir 1 og Jenný Fjóla Ólafsdóttir 1 mark.

Stelpurnar eru því áfram ósigraðar á toppi deildarinnar fyrir lokaumferðina. Lokaleikur þeirra í deildinni er heimaleikur gegn HK, laugardaginn 17. mars. Það er jafnframt úrslitaleikur um sigur í Grill 66 deildinni og um leið sæti í efstu deild.

Næsta verkefni KA/Þór er þó undanúrslitaleikur í Coca Cola bikarkeppninni gegn úrvalsdeildarliði Hauka en hann verður í Laugardalshöllinni fimmtudaginn 8. mars klukkan 19:30.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband