Flýtilyklar
Fjórir leikmenn á reynslu hjá Malmö FF
Í vikunni hafa Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Hafdís Nína Elmarsdóttir, Sigurður Nói Jóhannsson og Snorri Kristinsson verið á reynslu hjá Malmö FF í Svíþjóð. Félagið er sigursælasta karlalið landsins og hóf fyrir fimm árum þátttöku í kvennakeppni.
Hafdís Nína og Bríet Fjóla
Kvennaliðið hefur komist upp um deild á hverju ári og leikur nú í efstu deild. Akademía félagsins er ein sú besta í Skandinavíu og hefur hlotið flestar stjörnur allra akademía í Svíþjóð.
Leikmennirnir stóðu sig afar vel og gáfu sænsku leikmönnunum ekkert eftir. Þeir tóku þátt í liðsæfingum, morgunæfingum og styrktaræfingum hjá félaginu. Malmö FF vinnur náið með skólum, sem gerir leikmönnum kleift að sinna bæði fótbolta og námi af krafti.
Snorri og Sigurður Nói
Með í för voru einnig þjálfarar KA en það eru þeir Aðalbjörn Hannesson, Andri Freyr Björgvinsson, Anton Orri Sigurbjörnsson og Garðar Sigurgeirsson. Auk þess að fylgjast með æfingum fengu þeir góða innsýn í starf félagsins, þar sem þeir sátu fundi daglega um starfsemi og innviði þess.
Ferðin tókst afar vel, enda voru móttökurnar hjá Malmö FF til fyrirmyndar.