Flýtilyklar
3-1 tap gegn FH í Krikanum
KA mætti sterku liði FH í Kaplakrika í 4. umferð Pepsi deildar karla. Ljóst var fyrir leikinn að erfitt verkefni væri fyrir hendi enda hefur FH verið besta lið landsins undanfarin ár en fyrir leikinn var FH með 6 stig í 2. sætinu og KA með 4 stig í 5. sætinu.
FH 3 - 1 KA
1-0 Steven Lennon ('48, víti)
2-0 Brandur Olsen ('69)
2-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('80)
3-1 Steven Lennon ('85)
KA liðið hóf leikinn af krafti þrátt fyrir að leika á móti vindi en þrátt fyrir nokkrar ágætistilraunir vantaði að ná að opna vörn heimamanna upp á gátt. FH-ingar komust betur í takt við leikinn um miðbik fyrri hálfleiks en áfram gekk liðunum erfiðlega að skapa sér alvöru færi og var fyrri hálfleikur því markalaus.
Strax í upphafi síðari hálfleiks breyttist leikurinn þegar Guðmann Þórisson tæklaði Egil Darra Makan innan teigs og Steven Lennon skoraði af öryggi úr vítinu og staðan orðin 1-0 fyrir FH. Heimamenn héldu áfram að sækja á KA liðið í kjölfarið og þegar um 20 mínútur lifðu leiks tvöfölduðu þeir forskot sitt þegar Brandur Olsen fylgdi á eftir vörslu hjá Cristian Martinez í marki KA.
Elfar Árni Aðalsteinsson gaf KA líflínu þegar hann skallaði fyrirgjöf Hrannars Björns Steingrímssonar í netið og enn voru 10 mínútur auk uppbótartíma eftir. En vonir manna um endurtekningu á 2-2 jafnteflinu frá því í fyrra voru slökktar skömmu síðar þegar Steven Lennon skoraði eftir klaufagang í vörn KA.
Lokatölur því 3-1 sigur FH og KA er því áfram með 4 stig í deildinni. Næsti leikur er heimaleikur gegn Keflavík á mánudaginn og ljóst að aftur þarf KA liðið að sækja stig á heimavelli sínum ef liðið ætlar að vera með í baráttunni í efri hlutanum.
Nivea KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Skoraði mark okkar liðs og var fín barátta í Elfari í dag. Mjög jákvætt að Elfar sé búinn að finna markaskóna en það er ljóst að hann þarf meiri þjónustu ef að við eigum að skora meira af mörkum.)