Flýtilyklar
10 KA menn héldu út gegn Blikum
KA lék sinn fyrsta leik í Pepsi deildinni í dag eftir HM hlé þegar Breiðablik kom norður á Greifavöllinn. Leikurinn var liður í 10. umferð deildarinnar og var ljóst fyrir leik að KA þyrfti eitthvað útúr leiknum enda var liðið í 10. sæti fyrir leikinn.
KA 0 - 0 Breiðablik
Aleksandar Trninic, KA - Rautt ('51)
Gestirnir úr Kópavogi hafa verið öflugir í sumar og slógu nýverið út Íslandsmeistar Vals í bikarnum. KA liðið byrjaði leikinn betur og gekk gestunum mjög erfiðlega að koma boltanum í spil á upphafsmínútunum. Elfar Árni Aðalsteinsson fékk svo úrvalsfæri þegar hann fékk fyrirgjöf einn gegn Gunnleifi en skalli hans var ekki nægilega góður og fór framhjá.
Breiðablik kom sér betur í takt við leikinn er á leið en KA var þó meira ógnandi. Þegar um kortér var liðið af leiknum var mikill darraðardans í teig Blika en þeir grænklæddu vörðust vel og tókst okkar liði ekki að koma skoti á markið.
KA varð svo fyrir áfalli þegar Hallgrímur Jónasson þurfti að fara af velli vegna meiðsla á 20. mínútu. Guðmann Þórisson kom inná í hans stað en hann hefur einnig verið að kljást við meiðsli. Í kjölfarið hélt KA áfram að ógna og voru bæði Ásgeir Sigurgeirsson og Elfar Árni aðgangsharðir við mark Blika en án árangurs og var staðan því 0-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Aleksandar Trninic gerði sig sekan um mjög klaufaleg mistök þegar hann braut af sér í upphafi síðari hálfleiks og uppskar sitt seinna gula spjald og þar með rautt. Þrátt fyrir að vera manni færri hélt KA liðið áfram að sækja af krafti en það gerðu gestirnir einnig og var leikurinn opnari og skemmtilegri fyrir vikið.
Cristian Martinez var traustur í marki KA og varði í nokkur skipti mjög vel. Besta færi leiksins fékk hinsvegar Bjarni Mark Antonsson þegar boltinn datt fyrir framan hann inn í teignum en hann þurfti að skjóta með öfugum fæti og hitti ekki á markið.
Blikarnir tóku yfir leikinn síðari hluta síðari hálfleiks og reyndu hvað þeir gátu til að finna sigurmarkið. Á lokaandartökum venjulegs leiktíma fengu gestirnir hornspyrnu og náði Martinez á magnaðan hátt að skutla sér til hliðar og slá skalla þeirra frá markinu.
Sem betur fer kom markið ekki og KA innbyrti þar með gott stig en það tók klárlega kraft úr liðinu að spila nær allan síðari hálfleikinn manni færri gegn vel spilandi liði Blika. KA er því komið með 9 stig í baráttunni og greinilegt að öll stig gríðarlega mikilvæg í þessari jöfnu deild.
Nivea KA-maður leiksins: Cristian Martinez (Cristian hefur fengið gagnrýni í sumar en hann var frábær í dag, sýndi öryggi og varði nokkur mjög krefjandi skot í leiknum. Frábært að sjá til kappans í dag og vonandi það sem koma skal.)