Flýtilyklar
Sigur á Mílunni og KA áfram í bikarnum
KA menn mættu á Selfoss til að spila við Míluna í Coca Cola bikar karla. Tvær breytingar voru á liðinu frá síðasta leik, skyttan Áki Egilsnes er staddur í Færeyjum en í hans stað kom gamla kempan Einar Logi Friðjónsson inn í hópinn. Þá var Hreinn Þór Hauksson ekki með en í skarðið hljóp kornungur leikmaður, Einar Birgir Stefánsson.
Mílumenn skoruðu fyrsta mark leiksins en KA svaraði með næstu þrem mörkum. Mílan jafnaði í 3-3 en þá tóku KA menn aftur góðan kipp og náðu fimm marka forskoti, 4-9. Sá munur hélst að mestu fram að hálfleik þar sem KA leiddi með fjórum mörkum, 8-12.
Jón Heiðar Sigurðsson fór á kostum í fyrri hálfleiknum og skoraði fimm mörk en Mílumenn réðu ekkert við Jón Heiðar. Dagur Gautason skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleiknum og Jovan Kukobat traustur í markinu.
KA hóf seinni hálfleikinn af krafti og von bráðar var forysta þeirra orðin sex mörk, 11-17 og sigurinn blasti við KA liðinu. En kálið var ekki sopið og gerðust menn heldur værukærir í framhaldinu auk þess sem Mílumenn gripu til þess ráðs að leika allar sóknir með aukamann. Þetta herbragð þeirra virtist koma KA liðinu í opna skjöldu og hægt og bítandi unnu Mílumenn upp forskotið. Munurinn var kominn niður í eitt mark, 19-20 áður en KA liðið reif sig upp á nýjan leik og gerði út um leikinn með góðum lokakafla. Góður fjögurra marka sigur staðreynd, 21-25 og liðið komið í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.
Dagur Gautason og Sigþór Gunnar Jónsson voru drýgstir í markaskoruninni, hvor um sig með fjögur mörk í hálfleiknum.
Mörk KA: Dagur Gautason 7, Jón Heiðar Sigurðsson 5, Sigþór Gunnar Jónsson 4, Andri Snær Stefánsson 3 (1 úr víti), Kristján Helgi Garðarsson 2, Daði Jónsson 1, Elfar Halldórsson 1, Jovan Kukobat 1 og Heimir Örn Árnason 1 (úr víti).
Jovan Kukobat átti góðan leik í markinu, 16 varin skot og Svavar Ingi Sigmarsson kom inná í blálokin og varði eina skotið sem hann fékk á sig.
Hjá Mílunni var Páll Dagur Bergsson markahæstur með fimm mörk og Sigurður Már Guðmundsson 4.
Næsta verkefni KA liðsins er útileikur gegn Hvíta Riddaranum úr Mosfellsbæ og er sá leikur á dagskrá klukkan 19:30 á föstudaginn og fer fram í Íþróttamiðstöðinni Varmá í Mosfellsbæ.
Leikurinn gegn Mílunni var í beinni útsendingu hjá Selfoss TV og færum við þeim bestu þakkir fyrir framtakið. Eitthvað voru lýsendur ekki alveg með nöfn allra leikmanna KA á hreinu, þannig hrósuðu þeir ítrekað leikmanninum Gauta mikið fyrir gott framlag til liðsins. Þar var að sjálfsögðu átt við Dag Gautason enda var faðir hans, Gauti Einarsson hvergi nálægur.
Hægt er að horfa á útsendinguna frá leiknum með því að smella hér.