Öruggur sigur KA á Hvíta Riddaranum

Handbolti

KA tók á móti Mosfellingunum í Hvíta Riddaranum í dag en leikurinn var liður í Grill 66 deild karla. Hvíti Riddarinn hefur ekki enn náð að hala inn stigi í deildinni og því mátti búast við að róðurinn yrði þeim erfiður í KA heimilinu. Sú varð einmitt raunin, KA menn tóku leikinn strax í sínar hendur og leiddu 16-8 í hálfleik.

Sömu yfirburðir heimamanna héldu áfram í seinni hálfleiknum og lauk leiknum með sautján marka sigri, 33-16 og liðið í vænlegri stöðu í baráttunni um sæti í efstu deild.

Mörk KA: Áki Egilsnes 9, Dagur Gautason 8, Sigþór Gunnar Jónsson 4, Andri Snær Stefánsson 3, Einar Logi Friðjónsson 3, Ólafur Jóhann Magnússon 2, Jóhann Einarsson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Kristján Helgi Garðarsson 1 og Sigþór Árni Heimisson 1 mark.
Svavar Ingi Sigmundsson átti stórleik í markinu og veljum við hann klárlega mann leiksins.

Mörk Hvíta Riddarans: Agnar Ingi Rúnarsson 6, Davíð Hlíðdal Svansson 6, Arnar Ingi Gunnarsson 1, Ástþór Sindri Eiríksson 1, Kristófer Beck Bjarkason 1 og Ófeigur Ragnarsson 1 mark.
Davíð Hlíðdal Svansson er kominn til liðs við Hvíta Riddarann en hann er kunnur sem einn af betri markvörðum landsins en að þessu sinni lék hann sem línumaður og kunni greinilega vel við sig í þeirri stöðu.

Næsti leikur KA liðsins er laugardaginn 3. mars þegar liðið heldur í Garðabæinn og mætir þar Ungmennaliði Stjörnunnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is