Magnaður endurkomusigur á HK

Handbolti
Magnaður endurkomusigur á HK
Magnaður karakter sem býr í strákunum! (mynd: EBF)

KA og HK mættust í KA-Heimilinu í næstsíðustu umferð Grill 66 deildar karla í gær. Mikið var undir í leiknum enda liðin í 2. og 3. sætinu og enn mikil spenna í toppbaráttu deildarinnar.

Byrjunin var mjög flott hjá okkar liði, KA komst í 3-0 eftir sjö mínútna leik en HK jafnaði með næstu þremur mörkum og eftir það var leikurinn jafn að mestu. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 10-10 og spennan í KA-Heimilinu í algleymingi.

Tímalína fyrri hálfleiks

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náðu frumkvæðinu. Þegar 7 mínútur lifðu leiks var staðan 17-20 fyrir HK og farið að fara um ansi marga á pöllunum. En þetta KA lið er alls ekki þekkt fyrir að gefast upp og lokamínúturnar voru svakalegar.

Næstu þrjú mörk voru gul og kviknaði allsvakalega í stuðningsmönnum KA fyrir vikið. HK fékk vítakast sem þeir nýttu og staðan 20-21. En KA liðið var komið í gang og 2 mörk frá Sigþóri Árna Heimissyni sáu til þess að þegar 2 mínútur voru eftir var staðan orðin 22-21. Gestirnir jöfnuðu metin í kjölfarið og KA fór í sína síðustu sókn þegar mínúta var eftir.


Sigþór Árni brýst í gegn. Smelltu á myndina til að sjá fleiri myndir úr leiknum

Strákarnir reyndu að hanga á boltanum eins og þeir gátu og á endanum kom höndin upp. Áki Egilsnes tók skotið og þrumaði boltanum í netið, 15 sekúndur eftir og KA komið yfir í 23-22. Hreinn Hauksson braut í kjölfarið af sér og uppskar brottvísun og 6 sekúndur enn eftir af leiknum. En Heimir Örn Árnason kláraði leikinn þegar hann varði langskot gestanna og sigurgleðin í KA-Heimilinu ósvikin!

Tímalína seinni hálfleiks

Mörk KA: Áki Egilsnes 6, Sigþór Gunnar Jónsson 6, Andri Snær Stefánsson 4, Dagur Gautason 2, Sigþór Árni Heimisson 2, Heimir Örn Árnason 1, Daði Jónsson 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1 mark.

Mörk HK: Kristófer Dagur Sigurðsson 7, Elías Björgvin Sigurðsson 6, Tryggvi Þór Tryggvason 2, Egill Björgvinsson 2, Pálmi Fannar Sigurðsson 1, Svavar Kári Grétarsson 1, Friðgeir Elí Jónasson 1, Ingi Rafn Róbertsson 1 og Kristján Ottó Hjálmsson 1 mark.

Tölfræði leiksins

Leikurinn var að sjálfsögðu í beinni útsendingu á KA-TV og hægt að horfa á hann hér í spilaranum.

Gríðarlega mikilvæg 2 stig í hús hjá strákunum sem þýða það að strákarnir eru öruggir með heimaleikjarétt í umspili um laust sæti í efstu deild og eiga enn tölfræðilega möguleika á sigri í deildinni. Til að KA vinni deildina þarf HK að leggja Akureyri að velli og KA að vinna Val U.

Við hvetjum alla til að mæta í KA-Heimilið á föstudaginn þegar Ungmennalið Vals mætir norður, þetta verður lokaleikurinn í deildinni og um að gera að styðja strákana til sigurs.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is