KA/Þór með öruggan sigur á ÍR

Handbolti
KA/Þór með öruggan sigur á ÍR
Katrín Vilhjálmsdóttir raðaði inn mörkum í dag

Það virðist fátt fá stöðvað KA/Þór liðið þessa dagana. Í dag tóku stelpurnar á móti ÍR sem er í þriðja sæti Grill 66 deildar kvenna. Heimastúlkur tóku leikinn strax í sínar hendur og eftir rúmlega átta mínútna leik höfðu þær náð fimm marka forskoti, 7-2. ÍR liðið var á þessum tíma búið að fá þrjú vítaköst sem öll fóru forgörðum. Raunar var vítanýting þeirra afar slök í leiknum, alls fékk ÍR sjö vítaköst í leiknum og náðu einungis að skora úr tveim síðustu vítunum, Sunna Guðrún varði tvö þeirra og hin höfnuðu í tréverkinu.

En áfram með fyrri hálfleikinn, ekkert var skorað lengi vel en eftir átta mínútna markaleysi komst KA/Þór aftur á skrið og varð forskotið mest átta mörk, 13-5. Hálfleikstölur 15-8 og KA/Þór augljóslega með örugg tök á leiknum.

Tímalína fyrri hálfleiks 

Heimastúlkur slökuðu ekkert á í seinni hálfleiknum og juku forskotið jafnt og þétt. Um miðbik hálfleiksins var staðan orðin 28-14 og ekkert sem benti til að ÍR næði að ógna neitt að ráði. Sú varð ekki raunin og leiknum lauk með fjórtán marka sigri 34-20.

Tímalína seinni hálfleiks 

Vörn KA/Þór var gríðarlega sterk og skilaði fjölmörgum hraðaupphlaupum sem Katrín Vilhjálmsdóttir skilaði í ÍR markið en Katrín var feykilega örugg í leiknum og klikkaði ekki á skoti, 9 mörk úr jafnmörgum skotum.

Mörk KA/Þór: Katrín Vilhjálmsdóttir 9, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 5, Martha Hermannsdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Steinunn Guðjónsdóttir 3, Ásdís Sigurðardóttir 1, Kolbrún María Bragadóttir 1 og Ólöf Marín Hlynsdóttir 1 mark.
Markverðirnir áttu prýðisleik, Sunna Guðrún Pétursdóttir með 17 varin (2 vítaköst) og Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir með flotta innkomu í lokin og varði 3 skot.

Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 5, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 4, Sara Kristjánsdóttir 3, Petra Waage 2, Elísabet Mjöll Guðjónsdóttir 1 og Margrét Valdimarsdóttir 1 mark.
Markverðir ÍR vörðu samtals 14 skot.

Helstu tölfræðiatriði leiksins

KA/Þór heldur því áfram siglingunni og hafa einungis tapað einu stigi í deildinni og verma sem fyrr toppsæti deildarinnar.

Næsta verkefni KA/Þór liðsins er útileikur gegn Aftureldingu laugardaginn 17. febrúar.

Leikurinn var í beinni útsendingu á KA-TV og hægt að horfa á hann í spilaranum hér að neðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is