Flýtilyklar
Frábær frammistaða KA/Þór í bikarnum
Olís deildarlið Hauka marði tveggja marka sigur 23:21 á 1. deildar liði KA/Þór í undanúrslitum Coca-Colabikarsins. Sigur Hauka var torsóttur gegn baráttuglöðum norðankonum sem komu fullar sjálfstrausts til leiks studdar fjölmenni í stúkunni.
Haukar byrjuðu betur og komust í 7-3 um miðjan fyrri hálfleikinn. En KA/Þór vann sig jafnt og þétt inn í leikinn, með þrem mörkum í röð minnkuðu þær muninn í eitt mark 7-6 og jöfnuðu nokkru síðar í 8-8. Haukar luku þó hálfleiknum af krafti og skoruðu fimm síðustu mörk hálfleiksins og leiddu þar með í hálfleik, 13-8.
Héldu flestir að Haukar myndu valta yfir KA/Þór í seinni hálfleiknum en annað kom á daginn. Stelpurnar skoruðu fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks og hélst þriggja marka munur lengst af. KA/Þór minnkaði muninn í eitt mark, 20-19 og allt á suðupunkti. Haukarnir héldu þó haus á lokamínútunum og endaði leikurinn eins og áður segir með tveggja marka sigri þeirra, 23-21.
Munurinn á liðunum var fyrst og fremst markvarslan en Elín Jóna í marki Hauka varði 12 skot á meðan markverðir KA/Þór vörðu aðeins tvo skot í leiknum.
Frábær varnarleikur var aðalsmerki KA/Þór í leiknum og sýndi liðið að það á fullt erindi í deild þeirra bestu á næsta tímabili.
Mörk KA/Þór: Martha Hermannsdóttir 6 (öll úr vítum), Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Kara Rún Árnadóttir 3, Ásdís Sigurðardóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 2 og Aldís Ásta Heimisdóttir 1 mark.