Akureyri hafði betur í Höllinni - myndir

Handbolti

Það var mikið fjör og mikil læti í kvöld þegar Akureyri Handboltafélag og KA mættust í slagnum um toppsætið í Grill 66 deild karla. Íþróttahöllin var þéttsetin og andrúmsloftið rafmagnað. KA skoraði fyrsta mark leiksins en Akureyri svaraði með næstu fjórum mörkum. Munurinn hélst tvö til þrjú mörk lengst af fyrri hálfleiks en Akureyri náði mest fimm marka forskoti þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn. KA minnkaði muninn niður í þrjú mörk með tveim síðustu mörkum hálfleiksins, staðan 11-8 í hálfleik.

Sami barningurinn hélt áfram í seinni hálfleiknum, Akureyri ávallt með forystuna en KA náði að minnka muninn niður í tvö mörk. Ekki komust þeir nær þrátt fyrir aragrúa af fínum færum sem strönduðu undantekningarlítið á Arnar Þór Fylkissyni í marki Akureyrar en Arnar átti stórbrotinn leik í markinu, klárlega leikur lífsins hjá Arnari.

Svo fór að lokum að Akureyri vann með fjórum mörkum, 24-20 og hafa þar með þriggja stiga forystu í toppsæti deildarinnar.

KA liðið spilaði í raun fínan leik og skapaði sér fjölmörg galopin færi sem að öllu óbreyttu hefðu skilað sigri en eins og áður segir þá vantaði að nýta öll þessi færi og því fór sem fór. Heimir Örn Árnason hrökk heldur betur í gang í sóknarleiknum undir lok leiksins og skoraði nánast þegar honum datt í hug.


Reynsluboltinn Heimir Örn Árnason skilaði sínu. Smelltu á myndina til að fá fleiri myndir

Mörk KA: Heimir Örn Árnason 5, Ólafur Jóhann Magnússon 4, Sigþór Árni Heimisson 3, Áki Egilsnes 2, Dagur Gautason 2, Andri Snær Stefánsson 1, Elfar Halldórsson 1, Hreinn Þór Hauksson 1 og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark. Jovan Kukobat stóð í markinu allan leikinn og átti fínan leik.

Mörk Akureyrar: Hafþór Már Vignisson 7, Brynjar Hólm Grétarsson 5, Igor Kopyshynskyi 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Garðar Már Jónsson 2, Patrekur Stefánsson 2 og  Karolis Stropus 1 mark. Arnar Þór Fylkisson ótrúlegur í marki Akureyrar og klárlega maður leiksins.


Smelltu á myndina til að sjá fjölmargar myndir Þóris Tryggvasonar af KA fólki á leiknum

Við óskum Akureyri til hamingju með sigurinn en minnum á að næsti leikur KA er á föstudagskvöldið, klukkan 20:15 þegar Þróttur kemur í heimsókn. Nú þarf bara að klára það dæmi af krafti og um að gera að fjölmenna og hvetja strákana til dáða í framhaldinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is