KA vann Val U og fer í umspilið

Handbolti
KA vann Val U og fer í umspilið
Áki fór fyrir KA liðinu í góðum sigri

Lokaumferð Grill 66 deildar karla í handboltanum fór fram í gær og tók KA á móti Ungmennaliði Val. Fyrir umferðina var enn smá möguleiki á að hampa sigri í deildinni en til þess þyrfti KA að vinna sinn leik og HK að vinna Akureyri.

Það tók liðin smá tíma að koma sóknarleiknum í gang og voru það gestirnir sem áttuðu sig fyrr og leiddu leikinn. Jafnt var á nánast öllum tölum en undir lok fyrri hálfleiks náði KA liðið fínum kafla og leiddi 14-11 þegar flautað var til hálfleiks.

KA liðið byrjaði síðari hálfleikinn eins og það lauk þeim fyrri og komst snemma í 8 marka forystu. Þarna héldu einhverjir að björninn væri unninn en ungt lið Vals var svo sannarlega ekki á þeirri skoðun. Í kjölfarið tókst KA ekki að skora í um 10 mínútur og munurinn skyndilega aðeins tvö mörk.

En þá kviknaði aftur á okkar liði og tókst að sigla stigunum tveimur í hús, 26-22 lokatölur. Í heildina var þetta flott frammistaða en vissulega hefði verið betra ef strákarnir hefðu náð að halda dampi og gera útum leikinn þegar forskotið var orðið þetta stórt.

Mörk KA: Áki Egilsnes 9 mörk (þar af 3 úr vítum), Sigþór Gunnar Jónsson 6, Dagur Gautason 4, Andri Snær Stefánsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Sigþór Árni Heimisson 2 og Daði Jónsson 1.

Mörk Vals U: Alexander Jón Másson 7 (þar af 7 úr vítum), Tumi Steinn Rúnarsson 6, Egill Magnússon 3, Arnór Snær Óskarsson 3, Gísli Gunnarsson 1, Ásgeir Snær Vignisson 1 og Viktor Andri Jónsson 1.

Á sama tíma í Íþróttahöllinni gerði Akureyri sitt og vann sigur á HK og stendur því uppi sem sigurvegari í deildinni og leikur í Olísdeildinni að ári. Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með áfangann.

Leikurinn var sýndur beint á KA-TV og hægt að horfa á útsendinguna í spilaranum hér að neðan.

KA liðið fer núna í smá pásu en HK og Þróttur munu keppa um hvort liðið leikur gegn KA um sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili og verður KA með heimaleikjarétt í þeirri rimmu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is