KA/Þór sigraði Fjölni í 8-liða úrslitum bikarsins

Handbolti
KA/Þór sigraði Fjölni í 8-liða úrslitum bikarsins
Stelpurnar fagna hreint frábærum sigri

KA/Þór vann stórsigur fyrir framan fullt hús af Akureyringum og er á leið í Final 4 í fyrsta skipti í sögu félagsins (og 1. deildarliðs kvenna)

KA/Þór byrjaði leikinn af miklum krafti og leiddi m.a. 7-2 eftir 8 mínútur þegar Fjölnir tók leikhlé. Allt gekk upp hjá KA/Þór á meðan Fjölnisstúlkur misstu boltann hvað eftir annað án þess að koma skoti á markið. Lítið breyttist við leikhléið og náðu heimastúlkur mest 8 marka forystu í fyrri hálfleik þegar staðan var 13-5 en Fjölnir klóraði í bakkann undir lok hálfleiksins, staðan í hálfleik var 20-15.
Mikið skorað en lítið um markvörslu hjá báðum liðum.

Tímalína fyrri hálfleiks 

KA/Þór hóf seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri og þannig kom fyrsta mark Fjölnis ekki fyrr en eftir rúmar 11 mínútna leik. Á sama tíma höfðu heimastúlkur gert 5 mörk og munurinn því orðinn 10 mörk.


Hulda Bryndís Tryggvadóttir skilaði sínu jafnt í sókn sem vörn.
Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.

Það var orðið nokkuð ljóst í hvað stefndi og gripu Fjölniskonur til þess ráðs að taka markvörðinn útaf og spila með aukasóknarmann það sem eftir lifði leiks. Það bar þó ekki teljandi árangur, Sunna Pétursdóttir varði vítakast og skoraði skömmu síðar í autt mark Fjölnis.

KA/Þór slakaði ekkert á og munurinn varð mestur 12 mörk undir lok leiksins, 33-21 en í lokin skildu ellefu mörk, 35-24 og KA/Þór komið örugglega í fjögurra liða úrslit bikarkeppninnar sem fram fara í Laugardalshöllinni, 8.-10. mars.

Tímalína seinni hálfleiks 

Eins og tölurnar sýna þá voru yfirburðir KA/Þór algjörir, jafnt í sókn sem vörn. Markvarslan kom til í seinni hálfleiknum og verður fróðlegt að sjá hvaða liði stelpurnar mæta í undanúrslitunum, Haukar, og Fram verða í pottinum og annaðhvort Stjarnan eða ÍBV.


Sigurhringurinn tekinn í leikslok.
Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.

Mörk KA/Þór: Martha Hermannsdóttir 15 (9 úr vítum), Katrín Vilhjálmsdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Steinunn Guðjónsdóttir 2, Auður Brynja Sölvadóttir 1, Ásdís Sigurðardóttir 1, Kara Rún Árnadóttir 1 og Sunna Guðrún Pétursdóttir 1 mark.
Sunna Guðrún og Margrét Einarsdóttir stóðu í markinu og vörðu samtals 10 skot, þar af varði Sunna 1 vítakast.

Mörk Fjölnis: Berglind Benediktsdóttir 8, Hanna Hrund Sigurðardóttir 5, Andrea Jacobsen 3, Elísa Ósk Viðarsdóttir 3, Helena Ósk Kristjánsdóttir 3, Arna Þyrí Ólafsdóttir 1 og Díana Ágústsdóttir 1 mark. Markverðir Fjölnis vörðu 9 skot í leiknum.

 

Martha Hermannsdóttir átti sannkallaðan stórleik, skoraði 15 mörk og var öryggið uppmálað á vítalínunni með 100% nýtingu, þ.e.a.s. 9 mörk úr 9 vítum. Það kom því fáum á óvart að Martha var var valin leikmaður leiksins og fékk að launum kassa af Coca Cola, enda bikarkeppnin kennd við drykkinn.


Atli Ragnarsson afhendir Mörthu viðurkenninguna.
Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.

Leikurinn var í beinni útsendingu á KA-TV og hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is