Flýtilyklar
Þrjú lið KA og KA/Þórs í bikarúrslitum
Skemmtilegasta helgin í íslenskum handbolta er framundan þegar úrslitaleikir í Powerade bikarnum fara fram að Ásvöllum. Það myndast ávallt afar skemmtileg stemning á leikjunum en einstaklega gaman er að úrslitaleikir í öllum aldursflokkum fara fram í sömu umgjörð.
Alls eigum við í KA og KA/Þór þrjú lið í bikarúrslitum í ár, rétt eins og í fyrra, og er það enn einn gæðastimpillinn á okkar öfluga starfi í handboltanum.
Hér fyrir ofan má sjá stelpurnar í 5. flokki KA/Þórs en stelpurnar á yngra ári eru komnar í bikarúrslitin þar sem þær mæta liði Vals. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá hve margar stelpur eru að æfa en alls eru þrjú lið í flokknum. Auk þess að vera komnar í úrslitaleikinn í bikarnum eru stelpurnar á toppnum í efstudeild. Þjálfari stelpnanna er Heimir Örn Árnason en Heimir varð sjálfur bikarmeistari með KA árið 1996 og Val árið 2009.
Strákarnir á yngra ári 5. flokks eru einnig í úrslitaleik bikarsins og er afar gaman að sjá hve öflugan árgang við eigum bæði stráka- og stelpumegin. Í úrslitaleiknum mæta strákarnir liði Vals. Rétt eins og stelpurnar eru strákarnir á toppnum í efstudeild og verður gaman að fylgjast með þessum öfluga árgang á stóra sviðinu. Þjálfarar liðsins eru Andri Snær Stefánsson sem varð sjálfur bikarmeistari með KA árið 2004 sem og bikarmeistari með 2. flokk KA sama ár. Auk þess var Andri Snær þjálfari bikarmeistaraliðs KA/Þórs árið 2021. Einnig er Sigþór Árni Heimisson þjálfari flokksins en hann varð bikarmeistari með 3. flokk KA árið 2011 og var aðstoðarþjálfari Andra með KA/Þór árið 2021.
Þá tryggðu stelpurnar í 3. flokk KA/Þórs sér sæti í bikarúrslitum með fræknum 28-25 sigri á HK í gær. Stelpurnar hafa verið á miklu skriði að undanförnu og virðast vera að toppa á réttum tíma. Það ætti kannski ekki að koma á óvart en stelpurnar munu mæta liði Vals í úrslitaleiknum rétt eins og hin liðin okkar. Þjálfari stelpnanna er Jónatan Magnússon en Jonni var fyrirliði KA sem varð bikarmeistari árið 2004.
Allir úrslitaleiki yngriflokka fara fram að Ásvöllum á sunnudaginn (2. mars) og er leikjaplan okkar liða eftirfarandi:
9:00 KA - Valur (5. flokkur karla yngri)
10:00 KA/Þór - Valur (5. flokkur kvenna yngri)
13:30 KA/Þór - Valur (3. flokkur kvenna)
Við óskum okkar mögnuðu liðum til hamingju með árangurinn og góðs gengis í úrslitaleikjunum.