Strákarnir slógu út Álftanes 2-0

Blak
Strákarnir slógu út Álftanes 2-0
Strákarnir afar sannfærandi (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti Álftanes heim í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki karla. Strákarnir höfðu unnið sannfærandi 3-0 sigur í fyrri leik liðanna og gátu með sigri tryggt sér sæti í úrslitum en Álftnesingar urðu að vinna til að knýja fram oddaleik.

Strákarnir byrjuðu leikinn af krafti og náðu góðu forskoti, staðan var 9-14 fyrir KA um miðbik hrinunnar þegar heimamenn gerðu átta stig í röð og sneru leiknum sér í vil. Í kjölfarið leiddi Álftanes en strákarnir gáfust ekki upp og jöfnuðu á endanum í 23-23 og fór hrinan í upphækkun. Enga smá upphækkun en liðin skiptust á að leiða með einu stigi uns KA loksins kláraði dæmið með 31-33 sigri.

Staðan orðin 0-1 og mikill hiti í mönnum enda maraþonhrina að baki. Heimamenn leiddu næstu hrinu með 1-2 stigum lengst af og voru staðráðnir í að jafna metin. Þeir leiddu 20-17 en þá loksins tókst KA liðinu að ná forystunni og á endanum vannst 21-25 sigur og staðan orðin ansi vænleg, 0-2.

Álftnesingar því með bakið uppvið vegg og urðu að vinna þriðju hrinuna. Strákarnir gerðu hinsvegar vel og leiddu nær allan tímann. Mestur varð munurinn fimm stig í 14-19 en þá kom áhlaup frá heimamönnum sem KA liðið náði að standa af sér og vann 22-25 sigur og 0-3 samanlagt.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA með 16 stig, Stefano Nassini var næstur með 14, Mason Casner gerði 10, Alexander Arnar Þórisson 5, Sigþór Helgason 4 og Filip Pawel gerði 1 stig.

KA er því komið í úrslit í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn eftir að vinna einvígið 2-0. Strákarnir eru því komnir skrefi nær að taka alla titla vetrarins rétt eins og þeir gerðu í fyrra, magnað lið sem við eigum!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is