Flýtilyklar
Myndir frá toppslag KA og Aftureldingar
KA tók á móti Aftureldingu á dögunum í uppgjöri toppliðanna í Mizunodeild kvenna í blaki. Fyrir leikinn var KA á toppi deildarinnar og hafði unnið alla 10 leiki sína í vetur en Mosfellingar voru fimm stigum á eftir okkar liði og þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að koma spennu í toppbaráttuna.
Ekki var byrjunin á leiknum eins og við KA menn hefðum viljað en gestirnir leiddu nær alla fyrstu hrinu og náðu sjö stiga forskoti í stöðunni 13-20. Þá hrukku stelpurnar í gang og þær komust yfir í 22-21 og aftur í 23-22. En það dugði ekki og Aftureldingarliðið kláraði hrinuna 23-25 og leiddi því 0-1.
Við tók hræðileg önnur hrina hjá okkar liði og gestirnir gjörsamlega keyrðu yfir stelpurnar. Mosfellingar tóku hrinuna 10-25 og því komnar í lykilstöðu 0-2 yfir.
En KA liðið er ekki beint þekkt fyrir að leggja árar í bát og stelpurnar komu sterkar til baka í þeirri þriðju. Eftir að hafa leitt nær allan tímann var KA liðið í dauðafæri á að klára hrinuna 24-20 yfir. En Mosfellingar knúðu fram upphækkun og í kjölfarið kom ótrúlegur kafli þar sem liðin sýndu frábæra takta. Að lokum vann KA 32-30 sigur og minnkaði muninn í 2-1.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum
Fjórða hrinan spilaðist svipað og sú þriðja, KA leiddi en aldrei voru gestirnir langt undan. En í þetta skiptið tókst stelpunum að klára dæmið strax og unnu 25-19 sigur. KA liðið var þar með búið að jafna í 2-2, tryggja oddahrinu sem og tryggja sér mikilvægt stig úr leiknum.
Mosfellingar reyndust hinsvegar sterkari í oddahrinunni og þær unnu hana að lokum frekar sannfærandi 7-15 og unnu því leikinn 2-3. Vissulega svekkjandi að tapa leiknum en það verður að hrósa liðinu mikið fyrir að koma til baka úr erfiðri stöðu og fá stig útúr leiknum.
Forysta KA á toppnum er því fjögur stig eftir leikinn en ekki tvö eins og hefði verið ef leikurinn hefði ekki farið í oddahrinu. KA er því áfram í bílstjórasætinu í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn en fjórar umferðir eru eftir af deildinni.
Paula del Olmo Gomez var stigahæst í liði KA með 20 stig, Helena Kristín Gunnarsdóttir gerði 14, Gígja Guðnadóttir 9, Nera Mateljan 7, Sóley Karlsdóttir 5, Jóna Margrét Arnarsdóttir 2, Hulda Elma Eysteinsdóttir 2, Valdís Kapitola Þorvarðardóttir 1, Heiðbrá Björgvinsdóttir 1 og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir 1 stig.
Næsti leikur stelpnanna er á miðvikudaginn er þær taka á móti Álftanesi kl. 20:15 í KA-Heimilinu.