Myndaveisla frá sigri KA á Álftanes

Blak
Myndaveisla frá sigri KA á Álftanes
Stelpurnar voru frábærar í gær (mynd Egill Bjarni)

Kvennalið KA í blaki vann góðan 3-1 sigur á Álftanesi í KA-Heimilinu í gær er liðin mættust í Mizunodeildinni. Þetta var fyrsti leikurinn í ansi langan tíma eftir Covid pásu en það kom ekki að sök og stelpurnar sýndu flottan leik sem tryggði þrjú mikilvæg stig.

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá herlegheitunum og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Egils Bjarna frá leiknum

Það voru gestirnir sem unnu fyrstu hrinu leiksins eftir sveiflukenndan leik. Liðin skiptust á að leiða en að lokum voru það Álftnesingar sem unnu hrinuna 23-25 og tóku þar með forystuna 0-1.

KA-liðið hrökk hinsvegar í gang í þeirri annarri og nýjasti leikmaður liðsins hún Mireia Orozco sýndi heldur betur að hún er öflugur liðsstyrkur en hún endaði með 21 stig í leiknum. Að lokum vannst öruggur 25-13 sigur og leikurinn orðinn jafn 1-1.

Gestirnir áttu fá svör við öflugum leik okkar liðs og aftur vannst afar sannfærandi sigur í þriðju hrinu, nú 25-11. Staðan var því orðin 2-1 og stelpurnar í möguleika á að sækja öll stigin með sigri í næstu hrinu.

Lið Álftanes sem var komið með bakið uppvið vegg spyrnti betur frá sér í upphafi fjórðu hrinu og leiddi meðal annars 6-8 en þá kom aftur frábær kafli hjá stelpunum okkar sem gengu frá dæminu og unnu að lokum 25-14 sigur og tryggðu sér öll stigin.

Mireia var stigahæst með 21 stig í okkar liði og þar á eftir kom Paula del Olmo Gomez með 15 stig. Gígja Guðnadóttir gerði 9, Jóna Margrét Arnarsdóttir 7, Sigdís Lind Sigurðardóttir 6, Heiðbrá Björgvinsdóttir 6 og Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir 1 stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is