Myndaveisla er KA lagði Þrótt 3-1

Blak
Myndaveisla er KA lagði Þrótt 3-1
Þrjú stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA lék sinn fyrsta leik í úrvalsdeild kvenna í blaki í gær er Þróttur Reykjavík mætti norður í KA-Heimilið. KA liðið er nokkuð breytt frá síðustu leiktíð auk þess sem að það vantaði aðeins í liðið í gær og því mátti reikna með krefjandi verkefni.

En það var ekki að sjá að stelpurnar þyrftu mikinn tíma til að spila sig saman því þær gjörsamlega keyrðu yfir Þróttara í fyrstu hrinu og unnu hana afar sannfærandi 25-12. Áfram leiddi KA liðið í annarri hrinu en þó var ljóst að gestirnir voru farnir að finna taktinn betur og við þurftum að hafa meira fyrir okkar stigum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Að lokum vannst 25-22 sigur og KA komið í 2-0. Mateo þjálfari KA fór þá að rótera liðinu meira og úr varð hörkuspennandi þriðja hrina uns staðan var jöfn 11-11. Þá kom magnaður 8-1 kafli hjá KA liðinu og leit allt út fyrir sannfærandi sigur í þriðju hrinu. En þá hrundi spilamennskan og gestirnir gengu á lagið. Allt í einu snerist dæmið alveg við og Þróttarar unnu hrinuna 23-25 og knúðu fram fjórðu hrinu.

Aftur tók KA liðið við sér og leiddi frá upphafi hrinunnar. Þróttarar voru þó aldrei langt undan og aftur komu þær með öflugan kafla þegar mest á reyndi er þær breyttu stöðunni úr 23-19 yfir í 23-22. Að þessu sinni tókst okkar liði þó að klára dæmið og sigla heim mikilvægum 3-1 sigri með 25-22 sigri í fjórðu hrinu.

Stelpurnar hefja því tímabilið á þremur góðum stigum og verður áhugavert að sjá til þeirra í næstu viku þegar HK mætir norður. Undirbúningstímabilið hefur verið óhefðbundið að þessu sinni og var leikurinn í gær fyrsti leikur KA í vetur og vonandi að liðið sé búið að hrista sig almennilega saman fyrir krefjandi leik gegn öflugu liði HK.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is