Flýtilyklar
Meistari Meistaranna á laugardaginn
Blaktímabilið fer af stað á laugardaginn þegar bæði karla- og kvennalið KA leika um titilinn Meistari Meistaranna og fara báðir leikir fram í KA-Heimilinu. Það má búast við hörkuleikjum enda fyrstu titlar vetrarins í húfi og leikmenn spenntir að hefja tímabilið.
Konurnar ríða á vaðið en KA og Afturelding mætast klukkan 15:00 en liðin börðust hart um titlana á síðustu leiktíð þar sem KA hampaði Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitlinum en bikarúrslitaleikur liðanna er einhver magnaðasti blakleikur síðustu ára en KA vann að lokum eftir oddahrinu.
Karlarnir taka svo við klukkan 19:30 en þá mætir KA liði Hamars en Hvergerðingar hömpuðu öllum titlunum á síðustu leiktíð. Liðin mættust í úrslitaleik Kjörísbikarsins og verður áhugavert að sjá hvernig liðin mæta til leiks í upphafi vetrar.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta í KA-Heimilið og taka þátt í þessari blakveislu sem við erum svo heppin að fá hingað norður.
KA-TV verður með breyttu sniði í vetur en leikirnir á laugardaginn verða sýndir beint gegn gjaldi en aðeins kostar 800 krónur að horfa á hvorn leik. Sent verður í gegnum vVenue og munum við setja inn hlekk á leikina þegar nær dregur.