Flýtilyklar
Lexi í úrvalsliðinu og KA með bestu umgjörðina
Alexander Arnar Þórisson var valinn í úrvalslið Mizunodeildar karla á nýafstöðnu blaktímabili. Blaksambandið kemur að valinu en Lexi lék að vanda lykilhlutverk í liði KA sem endaði í 2. sæti Íslandsmótsins og er afar vel að heiðrinum kominn.
Þá fékk KA verðlaun fyrir bestu umgjörðina en Blakdeild KA sem og félagið í heild sinni hefur lagt mikla vinnu í kringum karla- og kvennaliðin okkar og afar gaman að sjá þá vinnu verðlaunaða. Þá fékk Arnar Már Sigurðsson formaður Blakdeildar KA silfurmerki BLÍ en hann hefur unnið ómetanlegt starf fyrir blakhreyfinguna.
Miguel Mateo Castrillo var svo verðlaunaður fyrir að vera stigahæsti leikmaður Mizunodeildar karla en hann farið hamförum undanfarin ár og er að fá verðlaunin fjórða árið í röð.
Fréttasíðan blakfrettir.is valdi einnig sitt úrvalslið og þar voru bæði Alexander Arnar og Miguel Mateo valdir. Auk þeirra var hún Jóna Margrét Arnarsdóttir valin efnilegasti leikmaður kvennamegin en þrátt fyrir að vera einungis 18 ára gömul hefur Jóna spilað frábærlega í stöðu uppspilara í okkar öfluga liði.