Kvennalið KA kláraði einvígið við Völsung

Blak
Kvennalið KA kláraði einvígið við Völsung
Stelpurnar stefna á þrennuna! mynd: Þórir Tryggva

KA sótti Völsung heim í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki kvenna í kvöld. Stelpurnar höfðu unnið fyrsta leikinn í oddahrinu eftir svakalega baráttu og mátti því búast við krefjandi leik á Húsavík.

Á sama tíma og KA gat með sigri tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins þá þurfi Völsungsliðið nauðsynlega á sigri að halda til að knýja fram oddaleik

Stelpurnar tóku snemma forystuna í fyrstu hrinu og leiddu nær allan tímann með 3-6 stigum. Að lokum vannst 21-25 sigur og staðan orðin 0-1. Völsungsliðið er hinsvegar með hörkulið og rétt eins og í fyrri leik liðanna komu þær sterkar til baka í annarri hrinu.

Um miðbik hrinunnar var staðan 13-10 fyrir Völsung en þá kom frábær kafli hjá stelpunum sem gerðu sex stig í röð og leiddu í kjölfarið 18-22. Aftur svöruðu heimastúlkur fyrir sig og jöfnuðu í 22-22, aftur var jafnt í 24-24 og fór hrinan því í upphækkun. Þar reyndist Völsungsliðið sterkara, vann 27-25 og jafnaði metin í 1-1.

Svakaleg spenna var í þriðju hrinu og munaði nær allan tímann 1-2 stigum á liðunum. KA liðið náði yfirhöndinni í síðari hluta hrinunnar og leiddi. Völsungsliðið var aldrei langt undan en á endanum vannst 23-25 sigur og KA komið í góða stöðu 1-2.

Heimastúlkur komust í 3-0 í upphafi fjórðu hrinu en þá kviknaði aftur vel á okkar liði og stelpurnar sneru dæminu við. Mestur varð munurinn sjö stig á liðunum í stöðunni 13-20 og KA vann á endanum 19-25 sigur og leikinn samtals 1-3.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í liði KA með 17 stig, Hulda Elma Eysteinsdóttir var næst með 14 stig og þær Gígja Guðnadóttir og Paula Del Olmo gerðu báðar 10 stig.

KA er því komið áfram í úrslit Íslandsmótsins og mun þar mæta HK. Stelpurnar eru Deildar- og Bikarmeistarar og eru nú skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum. HK á fyrsta heimaleik sem fer fram 10. apríl, síðan á KA tvo heimaleiki. Ef þarf er fjórði leikur heimaleikur hjá HK og hreinn oddaleikur í KA-Heimilinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is