KA vann afar sannfærandi 3-0 sigur

Blak
KA vann afar sannfærandi 3-0 sigur
3 stig í kvöld (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Þrótti Vogum í Mizunodeild karla í blaki í kvöld en KA liðið sem hafði verið á miklu skriði er kom að tapi gegn Aftureldingu í Kjörísbikarnum á dögunum lék án þeirra Miguel Mateo Castrillo og André Collins og var því áhugavert að sjá hvernig strákarnir myndu mæta til leiks gegn botnliðinu.

KA liðið byrjaði leikinn hinsvegar afar vel og náði snemma fimm stiga forskoti. Jafnt og þétt héldu strákarnir áfram að auka muninn og frábær kafli um miðbik hrinunnar kom liðinu í 16-7 og síðar í 18-8. Eftir það var aðeins spurning hve stór sigur KA yrði en að lokum vannst 25-18 sigur og útlitið gott.

Hrina 1

Aftur byrjuðu strákarnir af krafti í annarri hrinu og komust í 6-0 áður en Þróttur Vogum komst loks á blað. Gestunum tókst að minnka muninn í þrjú stig tvívegis en þá kom frábær kafli hjá KA liðinu sem gerði útum hrinuna og varð munurinn mest níu stig en lokatölur voru aftur 25-18 og KA komið í 2-0.

Hrina 2

Þróttur Vogum hafði því engu að tapa í þriðju hrinu og þeir byrjuðu betur að þessu sinni og komust í 5-8. Strákarnir svöruðu hinsvegar með næstu sex stigum leiksins og tóku frumkvæðið. Jafnt og þétt tókst þeim að skilja sig frá Þrótturunum og þegar upp var staðið vannst sannfærandi 25-17 sigur og leikinn samanlagt 3-0.

Hrina 3

Afar mikilvæg þrjú stig í hús og jákvæð frammistaða. Það var heldur betur gaman að sjá strákana stíga upp í fjarveru þeirra Mateo og André og ekki spurning að það mun hjálpa liðinu þegar komið er í úrslitakeppnina að allir leikmenn liðsins séu að standa undir þeirri ábyrgð að spila mikilvæg hlutverk.

Gísli Marteinn Baldvinsson var stigahæstur í kvöld með 14 stig en hann fór hamförum í fyrstu hrinu þar sem hann gerði 9 stig. Oscar Fernández Celis gerði 9 stig, Alexander Arnar Þórisson lék á kantinum í kvöld og gerði 8 stig. Hermann Biering Ottósson og Benedikt Rúnar Valtýsson gerðu báðir 4 stig, Filip Pawel Szewczyk gerði 3 og Sölvi Páll Sigurpálsson gerði 2 stig.

KA er því komið með 25 stig eftir 10 leiki og er í 3. sæti en á leik til góða á HK sem er með 26 stig og stefnir því í ansi spennandi baráttu á toppnum en Hamar er í efsta sætinu með 30 stig af 30 mögulegum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is