HK sló KA úr leik í Kjörísbikarnum

Blak
HK sló KA úr leik í Kjörísbikarnum
KA nær ekki að verja bikartitilinn (mynd: EBF)

Það var vægast sagt stórleikur í Fagralundi í Kópavogi í kvöld er HK tók á móti KA í 8-liða úrslitum Kjörísbikars karla í blaki. Þarna áttust við liðin sem hafa barist um alla titla undanfarin ár og ljóst að það lið sem myndi tapa myndi detta úr leik og þar með missa af bikarúrslitahelginni.

Strax frá upphafi varð ljóst að leikurinn yrði háspenna lífshætta og myndi bjóða upp á mikla skemmtun. KA byrjaði betur og leiddi með 2-4 stigum í fyrstu hrinu og mátti því ekkert útaf bregða. Strákarnir gerðu mjög vel í lok hrinunnar og sigldu á endanum 19-25 sigri og tóku þar með forystuna 0-1.

Liðin skiptust á að leiða í upphafi næstu hrinu en í stöðunni 7-5 fyrir HK komu fimm stig í röð frá KA sem komst í 7-10. Ekki leið þó á löngu uns HK jafnaði í 12-12 og mátti vart á milli sjá hvort liðið myndi klára hrinuna. KA var yfir 21-22 fyrir lokakaflann en í kjölfarið gekk ekkert upp hjá strákunum og HK refsaði með fjórum stigum og jafnaði því í 1-1 með 25-22 sigri.

Það stefndi allt í sömu baráttu í þeirri þriðju en í stöðunni 12-10 fyrir HK kom erfiður kafli og HK komst í 19-13. Strákarnir náðu að minnka muninn í 19-16 en komust ekki nær og tapaðist hrinan á endanum 25-16 og KA liðið þar með komið með bakið uppvið vegg 2-1 undir.

Áfram voru það heimamenn sem leiddu í þeirri fjórðu en aldrei var KA liðið langt undan. HK komst mest fimm stigum yfir og voru í úrvalsstöðu á að klára leikinn í stöðunni 23-20. KA liðið gafst hinsvegar ekki upp og komst yfir í 23-24 en tókst ekki að ganga frá hrinunni og því þurfti að fara í upphækkun.

Upphækkunin var ótrúlega spennandi og skiptust liðin á að taka forystuna og ljóst að hrinan myndi ráðast á litlu atriði. Því miður féllu hlutirnir ekki með strákunum og HK vann 30-28 sigur eftir algjöra veislu fyrir áhorfendur.

Leikurinn tapaðist því 3-1 og er KA þar með fallið úr leik í Kjörísbikarnum þetta árið. Strákunum tekst því ekki að verja Bikarmeistaratitil sinn sem þeir höfðu unnið tvö ár í röð. Mjög svekkjandi niðurstaða en það er ekki hægt annað en að hrósa liðinu fyrir frammistöðuna gegn afar öflugu HK liði.

KA liðið hefur bætt sig gríðarlega á undanförnum vikum eftir brösótt gengi framan af vetri og tryggði sér meðal annars sæti í úrslitakeppninni á dögunum. Það er því ekkert annað í stöðunni en að halda bara áfram að gefa í og taka svo þann stóra þegar kemur að úrslitakeppninni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is