Flýtilyklar
HK knúði fram hreinan úrslitaleik kvennamegin
HK tók á móti KA í fjórða leik liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í Fagralundi í kvöld. Rétt eins og í síðasta leik hefði KA tryggt sér titilinn með sigri en HK var að berjast fyrir lífi sínu og þurfti sigur til að halda einvíginu gangandi.
Hvort það væri eitthvað stress í liði KA í upphafi leiks skal ég ekki segja en heimastúlkur byrjuðu mun betur og spiluðu vel á meðan KA liðið gerði ófá mistökin. Staðan var snemma orðin 8-4 og síðar 16-8 og útlitið ekki gott. En næstu fimm stig voru KA og aftur náðu stelpurnar góðri rispu þegar þær minnkuðu muninn í 22-20. Nær komust þær ekki og HK vann að lokum 25-21 og tóku því forystuna 1-0.
Aftur byrjuðu stelpurnar hrinuna illa og HK komst í 5-0 og síðar 10-4. Þá tók hinsvegar við frábær spilamennska hjá stelpunum og þær sneru hrinunni sér ívil og komust í 16-19. En því miður tókst ekki að klára dæmið og HK kom til baka með 25-23 sigri og staðan því orðin 2-0 í hrinum.
Þá kviknaði vel á liðinu og stelpurnar voru komnar í 5-13 um miðbik þriðju hrinu og HK búið með öll sín leikhlé. Stelpurnar hreinlega völtuðu yfir HK liðið og sýndi loksins almennilega hvað býr í liðinu. Lokatölur í hrinunni urðu 16-25 og von um að okkar lið væri komið í gang og myndi snúa leiknum sér ívil.
En í þriðja skiptið hófu stelpurnar hrinuna bara ekki vel og nú snerist staðan við frá þriðju hrinu, HK leiddi 14-6 og Mateo þjálfari KA var búinn með leikhléin sín. En aftur tókst stelpunum að koma sér í gang og þær minnkuðu muninn jafnt og þétt. HK tók leikhlé í stöðunni 23-19 og virtist vera með hrinuna í hendi sér. KA liðið gerði hinsvegar virkilega vel og jafnaði í 24-24 og hrinan fór því í upphækkun.
Þar reyndist HK liðið hinsvegar sterkara og þær gerðu tvö stig til að klára hrinuna 26-24 og leikinn þar með samtals 3-1. Með sigrinum er HK því búið að jafna metin í einvíginu í 2-2 og þurfa liðin því að mætast í hreinum úrslitaleik í KA-Heimilinu annan í páskum, mánudaginn 22. apríl, klukkan 16:00.
Það er því klárt mál að við þurfum öll að mæta í KA-Heimilið, gulklædd og klár í að styðja stelpurnar til að klára þetta verkefni. Stelpurnar eru Deildar- og Bikarmeistarar og ætla sér svo sannarlega að klára Íslandsmeistaratitilinn einnig, áfram KA!