Flýtilyklar
Heimaleikur gegn Völsung á morgun
KA tekur á móti Völsung annaðkvöld, miðvikudag, klukkan 20:15 í úrvalsdeild kvenna í blaki. Stelpurnar unnu frækinn 3-0 sigur á Aftureldingu í síðasta leik sem færði liðið skrefi nær Deildarmeistaratitlinum en KA og Afturelding eru langefst í deildinni.
Sigurinn gegn Aftureldingu var algjörlega frábær og þrátt fyrir það áfall að fyrirliðinn, Gígja Guðnadóttir, meiddist snemma í annarri hrinu og gat ekki tekið frekari þátt í leiknum stigu stelpurnar einfaldlega upp og unnu stórkostlegan 3-0 sigur. Þetta var annað tap Aftureldingar í vetur en bæði töpin hafa einmitt komið gegn okkar liði
Þórir Tryggvason ljósmyndari var á leiknum og býður hér til myndaveislu frá sigrinum góða. Við kunnum honum bestu þakkir fyrir framtakið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leik KA og Aftureldingar
Stelpurnar eiga þó enn eftir að leika þrjá leiki í deildinni og ljóst að þær mega alls ekki misstíga sig en ef KA og Afturelding verða jöfn að stigum mun hrinuhlutfall gilda og þar er ansi mjótt á mununum.
Lið Völsungs hefur heldur betur verið að stíga upp síðari hluta tímabils og hefur tekið stig af liðunum í efri hlutanum. Það er því ljóst að stelpurnar okkar þurfa að vera með 100% einbeitingu til að sækja öll stigin gegn þeim grænu en liðin mætast svo á Húsavík viku síðar.