Glæsisigur KA í toppslagnum

Blak
Glæsisigur KA í toppslagnum
Frábær sigur í kvöld (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti HK í Mizunodeild karla í blaki í kvöld en liðin hafa barist um helstu titlana undanfarin ár og voru í 2. og 3. sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins. Það var ljóst að liðið sem myndi tapa væri úr leik í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn og því ansi mikið í húfi.

KA liðið hafði lent í erfiðleikum í síðasta leik gegn Fylki en tókst að klára verkefnið að lokum í oddahrinu. Það virðist sem að sá leikur hafi vakið strákana all hressilega því allt annað var að sjá til þeirra í kvöld.

Leikurinn fór jafnt af stað en KA hafði þó frumkvæðið og þegar leið á fyrstu hrinu slípaðist spilamennska liðsins enn betur til. Hægt og bítandi tókst strákunum að skilja sig frá HK og unnu að lokum 25-19 sigur og tóku þar með 1-0 forystu.

Hrina 1

Jafnt var á öllum tölum í upphafi annarrar hrinu þar sem liðin skiptust á að leiða. En rétt eins og í fyrstu hrinu tókst KA liðinu að skilja sig frá gestunum um miðbik hrinunnar. Staðan var jöfn 9-9 er KA gerði fimm stig í röð og litu aldrei um öxl í kjölfarið. Að lokum vannst ansi sannfærandi 25-20 sigur og strákarnir þar með komnir í 2-0 og öruggir með að minnsta kosti stig.

Hrina 2

HK var þar með komið í erfiða stöðu og byrjaði þriðju hrinuna betur. En það tók ekki langan tíma fyrir strákana að finna taktinn að nýju og taka yfir. Enn og aftur skildi að um miðbik hrinunnar og komst KA í 17-13 og síðar 22-15 fyrir lokakaflann. Sigur strákanna var því í raun aldrei í hættu og að lokum vannst 25-18 sigur og þar með 3-0 samanlagt.

Hrina 3

Móttakan hjá KA liðinu í dag var með besta móti og í kjölfarið var verkefni Filips í uppspilinu auðveldara og sóknarleikurinn því í essinu sínu. HK er með einhverja bestu móttöku landsins en þeir áttu fá svör við skothríð okkar liðs en KA gerði alls 38 stig eftir smöss gegn 26 hjá gestunum.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í dag með 13 stig, Alexander Arnar Þórisson gerði 11, Oscar Fernández Celis 9, André Collins dos Santos 9, Benedikt Rúnar Valtýsson 5 og Filip Pawel Szewczyk 3 stig.

Eftir leikinn er KA með 19 stig og á tvo leiki til góða á topplið Hamars sem er með 30 stig en HK er með 23 stig eftir 10 leiki. Strákarnir geta því komið sér upp fyrir HK og fimm stigum á eftir liði Hamars en liðin eiga eftir að mætast á Hveragerði.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is