Fjögur í liði ársins - Auður efnilegust

Blak

Úrslitakeppnin í blaki er í fullu fjöri þessa dagana þar sem bæði karla- og kvennalið KA standa í eldlínunni í undanúrslitum Íslandsmótsins. Deildarkeppninni lauk á dögunum þar sem kvennalið KA stóð uppi sem Deildarmeistari og karlalið KA vann neðri krossinn.

Í uppgjöri Unbrokendeildanna var kosið í lið ársins og þar á KA fjóra fulltrúa auk þess sem að kvennalið KA á besta erlenda leikmanninn, efnilegasta leikmanninn og besta þjálfarann.

Julia Bonet Carreras var kjörin besti erlendi leikmaður Unbrokendeildar kvenna auk þess að vera valin í úrvalslið deildarinnar sem kantur. Julia hefur komið gríðarlega sterk inn í lið KA í vetur og var næststigahæsti leikmaður deildarinnar með 308 stig en auk þess er hún aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var einnig valin í úrvalslið Unbrokendeildar kvenna sem kantur en Helena hefur verið ein öflugasta blakkona landsins undanfarin ár og var meðal annars kjörin besti leikmaður deildarinnar í fyrra og blakkona ársins árið 2019 auk þess að vera íþróttakona KA árið 2023.

Auður Pétursdóttir var kjörin efnilegasti leikmaður Unbrokendeildar kvenna en Auður sem er aðeins 16 ára gömul er orðin algjör lykilmaður í sterku liði KA sem miðja.

Gísli Marteinn Baldvinsson er í úrvalsliði Unbrokendeildar karla sem miðja en Gísli Marteinn hefur farið hamförum á miðjunni í ár rétt eins og á síðustu leiktíð. Hann varð þriðji blokkhæsti leikmaður deildarinnar með 49 blokkstig.

Miguel Mateo Castrillo er þjálfari ársins í Unbrokendeild kvenna en Mateo stýrði kvennaliði KA til enn eins titilsins er stelpurnar stóðu uppi sem Deildarmeistarar. Það má með sanni segja að Mateo hafi rifið kvennastarf KA upp í hæstu hæðir og tekist að halda liðinu á toppnum þrátt fyrir miklar mannabreytingar undanfarin ár.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is