Endurkomusigur KA hefndi fyrir bikartapið

Blak
Endurkomusigur KA hefndi fyrir bikartapið
Frábær karakter hjá stelpunum (mynd: BLÍ)

KA sótti HK heim í Mizunodeild kvenna í blaki í dag en liðin mættust einmitt í úrslitaleik Kjörísbikarsins um síðustu helgi þar sem HK fór með sannfærandi sigur af hólmi. Stelpurnar voru hinsvegar staðráðnar í að hefna fyrir tapið og úr varð frábær blakleikur.

HK byrjaði leikinn betur og komst í 12-6 en stelpurnar voru í vandræðum með móttökuna í upphafi og HK nýtti sér það vel. En þegar leið á hrinuna náði KA liðið áttum, HK leiddi 19-14 þegar KA gerði sjö stig í röð og komst í 19-21. Stelpurnar leiddu svo 22-23 en það dugði ekki og HK tók fyrstu hrinu 25-23.

Þrátt fyrir svekkjandi tap var KA liðið ekki af baki dottið og stelpurnar komu frábærlega inn í aðra hrinu. Þær tóku frumkvæðið strax og stungu loks af þegar mest á reyndi og sigldu heim 20-25 sigri í hrinunni og jöfnuðu þar með metin í 1-1.

Það leit út fyrir að stelpurnar næðu að endurtaka leikinn í þriðju hrinu en öflugur kafli HK um miðbik hrinunnar breytti stöðunni úr 11-14 yfir í 21-17 og HK vann að lokum 25-19 sigur og komið í algjöra kjörstöðu fyrir fjórðu hrinuna.

En stelpurnar okkar hafa sýnt það oft og mörgum sinnum að það býr frábær karakter í liðinu og þær komu vel stemmdar til leiks í fjórðu hrinunni. Gerðu fyrstu fimm stigin og gáfu alltaf aftur í þegar HK reyndi að koma með áhlaup. Lokaspretturinn var svo magnaður hjá stelpunum sem unnu hrinuna 16-25 og knúðu þar með fram oddahrinu.

Stelpurnar voru komnar með öll völd á vellinum og héldu áfram að spila frábært blak í oddahrinunni. KA komst í 0-6 og loks 1-10 og í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Að lokum vannst 6-15 sigur í oddahrinunni og leikurinn þar með 2-3.

KA hefndi þar með fyrir tapið í bikarúrslitunum og aðeins annað tap HK staðreynd í vetur. Það verður þó að teljast ansi líklegt að HK standi uppi sem sigurvegari í deildinni en afar sterkt fyrir okkar lið að ná að sigra HK fyrir framhaldið og ætti að gefa okkar liði mikla trú á verkefninu ef liðin skyldu mætast í úrslitakeppninni.

Það er þó nóg framundan en KA mætir Þrótti Reykjavík á morgun og verður gaman að sjá hvort stelpunum takist að sækja þar mikilvæg þrjú stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is