Strákarnir jöfnuðu metin með góðum sigri

Blak
Strákarnir jöfnuðu metin með góðum sigri
Flott frammistaða í kvöld (mynd: Þórir Tryggva)

Það var ansi mikið undir í leik KA og HK er liðin mættust í öðrum leik sínum í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla. HK hafði unnið fyrsta leikinn og því varð KA að knýja fram sigur til að jafna metin í einvíginu.

Leikurinn byrjaði reyndar ekki vel fyrir okkar lið en Filip Pawel Szewczyk spilandi þjálfari fékk rautt spjald í upphitun fyrir óíþróttamannslega framkomu sem gaf HK fyrsta stigið auk þess sem þetta er þriðja rauða spjaldið á Filip í vetur. Hann verður því í banni í leik liðanna á morgun.

Strákarnir létu það ekki á sig fá og var svakaleg barátta hjá liðunum í upphafi hrinunnar. Í stöðunni 9-8 fyrir KA náðu strákarnir loksins að slíta sig aðeins frá gestunum og komust í 14-9. Sá munur hélst út hrinuna og KA vann nokkuð sannfærandi sigur í fyrstu hrinu 25-22 og staðan orðin 1-0.

Næsta hrina byrjaði á svipuðum nótum og sú fyrsta, en KA seig framúr og virtist vera með málin í sínum höndum í stöðunni 15-10. En HK er með hörkulið og þeir jöfnuðu metin í 16-16 og aftur í 17-17. En þegar mest á reyndi sýndu strákarnir styrk sinn og sigldu á endanum góðum 25-21 sigri og staðan orðin ansi hreint vænleg fyrir okkar lið, 2-0.

HK var því komið með bakið upp við vegg og þeir gerðu sitt besta í að minnka muninn. Þeir hófu þriðju hrinuna betur og leiddu lengst af. Það var farið að fara aðeins um stuðningsmenn KA sem voru ófáir í KA-Heimilinu í kvöld er staðan var 15-19 en þá gerði KA liðið fimm stig í röð og sneri stöðunni sér ívil.

Jafnt var á næstu tölum og stefndi í upphækkun en þá tók Miguel Mateo til sinna ráða og gerði lokastigin tvö og tryggði 25-23 sigur KA og samanlagt 3-0 í leiknum sjálfum. Frábær frammistaða hjá strákunum sem bættu töluvert í leik sinn frá fyrri viðureign liðanna og ljóst að þeir þurfa að halda áfram á þessari braut í næstu leikjum til að klára einvígið.

Það verður þó áhugavert að fylgjast með hvernig strákarnir leysa það af að missa Filip í bann. Filip er einhver albesti uppspilari sem hefur spilað á Íslandi og algjör lykilpartur af KA liðinu auk þess sem Arnar Már Sigurðsson er frá vegna veikinda en Birkir Freyr Elvarsson lék libero í hans stað í kvöld og stóð sig með prýði.

Það er blaktvíhöfði á morgun sem hefst kl. 14:00 með annarri viðureign kvennaliða KA og HK en KA leiðir það einvígi 1-0 eftir fyrsta leikinn í Kópavogi. Með sigri á morgun geta stelpurnar tryggt titilinn á sunnudag og klárt að þær þurfa á þínum stuðning að halda. Strákarnir mætast svo aftur í kjölfarið kl. 16:00.

Hlökkum til að sjá ykkur en Blakdeild KA ætlar að vera með smá húllumhæ í kringum leikina, fríar pizzur og drykkir verða í boði fyrir alla á svæðinu á meðan birgðir endast auk þess sem allir þeir sem borga sig inn fara í páskaeggjapott.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is