Stórkostlegur sigur í toppslagnum

Blak
Stórkostlegur sigur í toppslagnum
Stelpurnar gátu heldur betur fagnað í leikslok!

KA sótti Íslandsmeistara Aftureldingar heim í algjörum toppslag í úrvalsdeild kvenna í blaki í kvöld en fyrir leikinn voru liðin jöfn á toppnum með fullt hús stiga. Afturelding hafði ekki tapað hrinu til þessa og ljóst að verkefnið yrði ansi krefjandi.

Fyrsta hrina var algjör veisla og ljóst að þarna mættust tvö bestu lið landsins um þessar mundir. Spennan var gífurleg og taktarnir sem bæði lið buðu uppá algjörlega magnaðir. Það var skrifað í skýin að hrinan myndi fara í upphækkun og það gerðist svo sannarlega. Að lokum vann KA liðið stórbrotinn 29-31 sigur og tók þar með 0-1 forystu í leiknum.

Veislan hélt áfram í þeirri annarri og hugðust heimastúlkur jafna metin strax í kjölfarið. Það var þó KA sem hafði frumkvæðið lengst af uns staðan var 12-14. Þá kom öflugur kafli hjá Mosfellingum sem gerðu fimm stig í röð og leiddu 20-18 fyrir lokakaflann. KA liðið tók þá öll völd á vellinum og hreinlega keyrði yfir Íslandsmeistarana og tryggði sér 21-25 sigur í hrinunni og komið í algjöra lykilstöðu.

Aftureldingarliðið kom af krafti inn í þá þriðju enda skyndilega komið með bakið uppvið vegg og gerði fyrstu fimm stig hrinunnar. Sá munur hélst í nokkra stund en í kjölfarið náðu stelpurnar að krafsa sig betur inn í leikinn. Fjögur stig í röð breyttu stöðunni úr 17-15 yfir í 17-18 og spennan í algleymingi fyrir lokakaflann.

Þar var jafnt á flestum tölum og endaði með upphækkun. Þar reyndust stelpurnar enn og aftur sterkari og sigldu 25-27 sigri heim og kláruðu þar með leikinn 0-3, ótrúlegt en satt!

KA er þar með eitt á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og það má heldur betur segja að úrslit kvöldsins séu yfirlýsing. Afturelding er með stórkostlegt lið og að klára það í þremur hrinum er hreint út sagt stórkostlegt þó vissulega hafi litlu munað þá sérstaklega í fyrstu og þriðju hrinu.

Framundan er mánaðarpása hjá liðinu vegna landsliðsverkefna og virkilega spennandi vetur framundan hjá okkar magnaða liði.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is