Stórglæsilegur 0-3 sigur KA í fyrsta leik

Blak
Stórglæsilegur 0-3 sigur KA í fyrsta leik
Frábær sigur í kvöld! (mynd: Þórir Tryggva)

KA gerði sér lítið fyrir og sótti frekar sannfærandi 0-3 sigur í Fagralund er KA og HK mættust í fyrsta leik í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. KA er Deildar- og Bikarmeistari og næstu tveir leikir fara fram í KA-Heimilinu um helgina og með sigri í þeim leikjum geta stelpurnar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Stelpurnar tóku strax 1-7 og síðar 7-20 forystu í fyrstu hrinu og var sigur KA aldrei í hættu. Lokatölur í fyrstu hrinu voru 13-25 fyrir KA og ljóst að HK liðið þyrfti að gera miklu betur ef það ætlaði að standa uppi í frábæru KA liði.

Oft getur það reynst erfitt að halda dampi í næstu hrinu eftir stórsigur en KA komst snemma í 5-10 og komust heimastúlkur aldrei nálægt okkar liði. Á endanum vannst 15-25 sigur, staðan orðin 0-2 og KA liðið hreint út sagt að yfirspila öflugt lið HK.

HK var því með bakið uppvið vegg í þriðju hrinu og loksins tókst þeim að standa uppi í hárinu á KA liðinu. Hrinan var jöfn og spennandi en KA liðið leiddi þó nær allan tímann. Eins og svo oft í vetur reyndust stelpurnar öflugri þegar mest á reyndi og unnu þær 22-25 sigur í hrinunni og leikinn þar með samtals 0-3.

Ákaflega sannfærandi sigur í höfn og KA leiðir því einvígið 1-0. Stelpurnar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í KA-Heimilinu um helgina með sigri í næstu tveimur leikjum en það er þó klárt að HK liðið getur gert betur og þær munu mæta klárar í næstu leiki enda slæmt að tapa leik á heimavelli þegar KA á heimaleikjaréttinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is