Stelpurnar með fullt hús fyrir toppslaginn

Blak
Stelpurnar með fullt hús fyrir toppslaginn
Tea hefur komið af krafti inn í liðið

KA tekur á móti Aftureldingu í algjörum toppslag í úrvalsdeild kvenna í blaki á morgun, laugardag, klukkan 18:00. KA er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en Afturelding kemur þar skammt á eftir, en Mosfellingar hafa einungis tapað einum leik í vetur og var það einmitt gegn KA.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga til að mæta á þennan stórleik en úrslitin munu skipta ansi miklu þegar upp er staðið í vor. En fyrir þá sem ekki komast á leikinn verður hann í beinni á KA-TV.

KA liðið hefur spilað virkilega vel það sem af er tímabili og hefur verið frábært að sjá hvernig þær Tea Andric og Nera Mateljan hafa komið inn í hópinn. Nera er komin aftur norður en hún lék áður hálft tímabil með liðinu.

Tea sem kemur frá Króatíu er öflugur kantsmassari en hún hefur bæði leikið á Spáni og í Frakklandi. Tea er afar teknískur leikmaður en hún er með bestu móttökuna í deildinni auk þess að vera þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar til þessa.

Þá hafa lykilleikmenn í liðinu haldið áfram að bæta í en Paula del Olmo er næststigahæsti leikmaður deildarinnar og Gígja Guðnadóttir hefur blokkað mest þegar litið er á spilaðar hrinur. Jóna Margrét Arnarsdóttir hefur bundið spilið afar vel saman í stöðu uppspilara en auk þess að gefa upp er Jóna með næstflest stig úr uppgjöfum í deildinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is