Stelpurnar í bikarúrslitin eftir 3-0 sigur

Blak
Stelpurnar í bikarúrslitin eftir 3-0 sigur
Sigrinum var vel fagnað (mynd: BLÍ)

KA mætti Völsung í undanúrslitum Kjörísbikars kvenna í blaki í gær en KA er ríkjandi Bikarmeistari eftir að hafa hampað sigri í keppninni árið 2019. Reiknað var með sigri okkar liðs en Húsvíkingar höfðu slegið út efstudeildarlið Álftanes á leið sinni í leikinn og því hættulegt að vanmeta andstæðinginn.

En stelpurnar mættu gríðarlega vel stemmdar inn í leikinn og var sigur KA aldrei í hættu. KA komst í 10-1 í upphafi fyrstu hrinu og vann hrinuna á endanum 25-13. Húsvíkingar komu þó af krafti inn í aðra hrinu og reyndu hvað þær gátu til að koma sér aftur inn í leikinn.

KA leiddi með 3-5 stigum uns kom að hinum mikilvæga lokakafla og þá stungu stelpurnar af og unnu 25-16 sigur í hrinunni og komnar í 2-0. Það var eins og þarna hefði slokknað alveg á liði Völsungs og KA komst í 17-1 forystu í þriðju hrinu. Að lokum vannst afar sannfærandi 25-7 sigur og samanlagt 3-0.

KA er þar með komið í úrslitaleikinn í Kjörísbikarnum þetta árið og freistar þess að verja titilinn. Leikurinn fer fram klukkan 13:00 í Digranesi á sunnudaginn og mæta stelpurnar þar HK sem vann góðan 3-1 sigur á Aftureldingu. Fyrir þá sem ekki komast á leikinn verður hann í beinni útsendingu á RÚV, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is