Sannfærandi sigur KA í fyrsta leik

Blak
Sannfærandi sigur KA í fyrsta leik
Frábær frammistaða í gær (mynd: Egill Bjarni)

KA og Afturelding mættust í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í KA-Heimilinu í gær. Liðin hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið í vetur og barist um alla titla tímabilsins. Það var því mikil eftirvænting fyrir fyrsta leik liðanna í gær.

Bikarúrslitaleikur liðanna á dögunum var einhver eftirminnilegasti blakleikur síðustu ára hér á landi þar sem KA fór með sigur í oddahrinu eftir æsispennandi leik. Það var hinsvegar ekki uppi á teningunum í gær en KA liðið sýndi stórbrotna frammistöðu og hreinlega keyrði yfir gestina.

Fyrsta hrina var þó jöfn og spennandi, Afturelding byrjaði betur og nýtti sér það að það virtist vera einhver skjálfti í stelpunum okkar sem gerðu fyrir vikið fleiri mistök. En þegar leið á slípaðist spilamennskan betur til og í kjölfarið náðu stelpurnar okkar yfirhöndinni. KA vann að lokum fyrstu hrinuna 25-22.

Hrina 1

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá leiknum magnaða hér fyrir neðan og kunnum við honum bestu þakkir fyrir framtakið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Aftur voru það gestirnir sem leiddu í upphafi annarrar hrinu en rétt eins og áður tóku stelpurnar við sér og stórbrotinn endasprettur skildi Mosfellinga hreinlega eftir og tryggði 25-16 sigur og KA í kjörstöðu 2-0.

Hrina 2

Það var svo aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í þriðju hrinu, frábær sóknarleikur KA liðsins hreinlega kaffærði Aftureldingu og munurinn varð fljótlega 10 stig. Að lokum vannst 25-17 sigur og leikurinn því samtals 3-0.

Hrina 3

Sóknarleikur KA liðsins var stórbrotinn en stelpurnar gerðu til að mynda 31 stig úr smössum gegn 16 auk þess að gera 10 stig úr laumum gegn 5. Þá skipti það líka máli hve margir leikmenn komu að stigaskoruninni hjá okkur en Paula del Olmo gerði 18 stig, Tea Andric 14, Jóna Margrét 8, Hrafnhildur Ásta 5, Nera Mateljan 5, Lovísa Rut 3 og Amelía Ýr 1 stig.

KA leiðir nú einvígið 1-0 en vinna þarf þrjá leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Liðin mætast aftur á morgun, þriðjudag, í Mosfellsbæ og alveg ljóst að Afturelding mun svara fyrir sig í þeim leik. Stelpurnar þurfa því strax aftur að ná fókus en það er alveg klárt að með samskonar frammistöðu og í gær er afar erfitt að stöðva okkar magnaða lið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is