Flýtilyklar
Myndaveisla frá dramatískum sigri á HK
Það var heldur betur stórleikur í KA-Heimilinu í gærkvöldi er KA tók á móti HK í Mizunodeild kvenna í blaki. Liðin börðust um alla titlana á síðustu leiktíð og kom því ekkert á óvart að leikur liðanna í gær hafi verið gríðarlega spennandi og dramatískur.
Fyrir leikinn var KA liðið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fyrstu fjóra leikina en gestirnir úr Kópavoginum voru með 7 stig eftir fyrstu fimm leiki sína og þurftu því nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við KA liðið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum
Gestirnir byrjuðu betur og komust snemma í 4-10, það var eins og það væri einhver skjálfti í KA liðinu og HK gekk á lagið á sama tíma og stelpurnar komu litlu spili af stað. Stelpurnar náðu þó góðum kafla í kjölfarið og jöfnuðu metin í 12-12. En fyrsta hrinan var í raun eign HK liðsins og þær unnu að lokum 18-25 sigur og leiddu því 0-1.
Eftir að jafnt var á með liðunum fyrstu stigin í annarri hrinu hrökk KA liðið loks í gang, hávörnin fór að loka vel, uppspilið varð betra sem skilaði fleiri smössum og móttakan tók við sér. Það var því aldrei spurning hvort liðið tæki hrinu tvö og fór KA liðið að lokum með 25-11 sigur og jafnaði metin í 1-1.
Stelpurnar héldu áfram að spila frábært blak í þriðju hrinu og gerðu fá mistök. Þær komust snemma í 9-2 og allt útlit fyrir að þær myndu aftur stinga af. Gestirnir náðu hinsvegar að svara fyrir sig og minnkuðu muninn í eitt stig í stöðunni 13-12. Þá sagði KA liðið hinsvegar hingað og ekki lengra og kláraði hrinuna 25-14.
Staðan var því orðin 2-1 og lykilhrina framundan, með sigri færi KA liðið með öll stigin en gestirnir þurftu sigur til að knýja fram oddahrinu. Aftur byrjuðu stelpurnar okkar af miklum krafti og komust í 5-0 og 6-1 áður en HK jafnaði í 8-8. Í kjölfarið var mikil barátta á vellinum og erfitt að sjá hvort liðið myndi klára dæmið.
HK komst á endanum yfir í stöðunni 14-15 og hafði frumkvæðið eftir það. Stelpurnar gáfust þó aldrei upp en tókst ekki að jafna metin er mest á reyndi og HK knúði þar með fram oddahrinu með 23-25 sigri í fjórðu hrinunni.
Útlitið var ekki bjart yfir okkar liði í stöðunni 2-6 í upphafi oddahrinunnar þar sem HK hafði gert fimm stig í röð. En eins og svo oft áður sýndu stelpurnar að það býr gríðarlega mikill karakter í liðinu og þær gerðu næstu sjö stig leiksins og komust því yfir í 9-6. Þær litu aldrei til baka eftir það og sigldu heim 15-10 sigri að lokum og þar með samtals 3-2.
KA missti þar með af sínu fyrsta stigi í vetur en mjög jákvætt að klára leikinn með sigri gegn ansi spræku HK liði sem lagði allt í leikinn. Á köflum spiluðu stelpurnar algjörlega frábært blak en duttu niður þess á milli og gáfu full mörg færi á sér sem sterkt lið eins og HK nýtti sér til að koma sér aftur í leikinn.
Paula del Olmo fór hamförum og gerði 26 stig fyrir KA liðið, Helena Kristín Gunnarsdóttir gerði 12 stig, Gígja Guðnadóttir 10, Luz Medina 9, Arnrún Eik Guðmundsdóttir 8, Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir 5, Andrea Þorvaldsdóttir 4, Heiðrún Júlía Gunnarsdóttir 3 og Jóna Margrét Arnarsdóttir 1 stig.
Næsti leikur stelpnanna er einmitt einnig gegn HK en liðin mætast í Fagralundi þann 23. nóvember og má svo sannarlega reikna með hörkuleik.