KA tók öll stigin á Neskaupstað

Blak
KA tók öll stigin á Neskaupstað
Flottur sigur í kvöld! (mynd: Egill Bjarni)

KA fór austur á Neskaupstað og mætti þar liði Þróttar í Mizunodeild karla í blaki í kvöld. Bæði lið höfðu unnið sannfærandi sigra í síðustu umferð og úr varð spennandi og skemmtilegur blakleikur þar sem KA fór á endanum með sigur af hólmi.

Strákarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust fljótlega í 2-6 áður en heimamenn minnkuðu muninn aftur niður í eitt stig. En þá gáfu strákarnir aftur í og náðu afgerandi forystu. Mestur varð munurinn tíu stig er KA leiddi 12-22 og að lokum vannst 16-25 sigur í fyrstu hrinu.

Þróttarar svöruðu hinsvegar fyrir sig í annarri hrinu og unnu hana sannfærandi að lokum 25-17 og jöfnuðu þar með metin í 1-1. Áfram voru töluverðar sveiflur í leiknum og KA svaraði í þriðju hrinu. Jafnt og þétt jókst forskot okkar liðs sem komst í 10-20 forystu fyrir lokakaflann. Þróttarar náðu að laga stöðuna en það var ekki nóg og 18-25 sigur KA kom liðinu í úrvalsstöðu fyrir fjórðu hrinu.

Það stefndi í enn eina sveifluna í upphafi fjórðu hrinu því heimamenn gerðu fyrstu fimm stigin. Það leið hinsvegar ekki á löngu uns KA var búið að snúa leiknum sér ívil á ný og leiddi 6-7 og í kjölfarið 9-15. Þróttarar reyndu hvað þeir gátu til að vinna sig aftur inn í hrinuna og tókst að minnka muninn niður í eitt stig en það var ekki nóg. 23-25 sigur KA því staðreynd og samtals 1-3.

KA tryggði sér þar með öll stigin í leiknum og eru strákarnir nú með 6 stig eftir þrjá leiki en það er skammt stórra högga á milli og strax á sunnudaginn fara strákarnir í Árbæinn og mæta þar liði Fylkis.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is