KA kláraði Þrótt í þremur hrinum

Blak
KA kláraði Þrótt í þremur hrinum
Mikilvæg 3 stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Þrótt Reykjavík í Mizunodeild kvenna í blaki í dag en fyrir leikinn voru liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar og berjast grimmt um hvort þeirra nái að fylgja HK og Aftureldingu í toppbaráttunni. Liðin mætast aftur á morgun þannig að það er ansi mikið undir hjá liðunum núna fyrir norðan.

Það sást strax að það var mikið undir í leiknum í dag en Þróttur byrjaði betur og komst snemma í 4-8 og síðar í 7-12. Þá hrökk KA liðið í gang og stelpurnar gerðu næstu sex stigin og tóku frumkvæðið. Jafnt var á með liðunum í kjölfarið en þegar mest á reyndi var KA liðið sterkara og vann að lokum 25-22 sigur í fyrstu hrinu.

Rétt eins og í fyrstu hrinu voru gestirnir aftur betri til að byrja með en nú voru stelpurnar fyrr að svara fyrir sig, náðu forystunni og leiddu með tveimur til fjórum stigum mestan hluta hrinunnar. Síðustu fjögur stigin voru svo KA liðsins sem tryggði 25-17 sigur og staðan þar með orðin 2-0 samanlagt.

Gestirnir úr Laugardalnum voru þar með komnir með bakið uppvið vegg og þær svöruðu hressilega fyrir sig í upphafi þriðju hrinu. Staðan var orðin 2-8 þegar stelpunum okkar tókst aftur að finna gírinn og jöfnuðu loks í 12-12. Hægt og bítandi tóku þær svo forystuna en aldrei voru Þróttarar langt undan.

Stelpurnar voru í góðri stöðu 23-19 undir lokin en gestunum tókst að minnka muninn í 24-23 og því töluverð spenna í loftinu. En þá geigaði uppgjöf hjá Þrótturum og KA vann þar með leikinn 3-0 og sótti gríðarlega mikilvæg þrjú stig.

Það var afar sterkt hjá okkar magnaða liði að klára verkefnið í þremur hrinum en það er klárt að stelpurnar þurfa að hafa sig allar við til að endurtaka leikinn á morgun er liðin mætast klukkan 13:00. Til að halda lífi í vonum um toppbaráttu er ljóst að liðið má ekki misstíga sig frekar en nú hafa bæði HK og Afturelding tapað stigum.

Paula del Olmo Gomez var stigahæst í liði KA með 15 stig, Mireia Orozco gerði 12 stig, Gígja Guðnadóttir 8, Sigdís Lind Sigurðardóttir 6, Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir 6 og Jóna Margrét Arnarsdóttir 5 stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is