Flýtilyklar
KA Kjörísbikarmeistari kvenna 2022!
KA er Bikarmeistari í blaki kvenna eftir stórkostlegan sigur á Aftureldingu í ótrúlegum úrslitaleik. KA og Afturelding hafa verið langbestu lið vetrarins, hafa unnið alla sína leiki gegn öðrum liðum landsins og því um algjöran draumaúrslitaleik að ræða.
Bikarmeistarar KA - Aftari röð frá vinstri: Nera Mateljan, Rakel Hólmgeirsdóttir, Paula del Olmo Gomez, Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir, Amelía Ýr Sigurðardóttir, Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, Tea Andric, Gígja Guðnadóttir, Miguel Mateo Castrillo og André Collin dos Santos
Fremri röð frá vinstri: Lilja Rut Kristjánsdóttir, Auður Pétursdóttir, Ída Katrín Kristinsdóttir, Jóna Margrét Arnarsdóttir, Heiðbrá Björgvinsdóttir og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir.
Og draumaúrslitaleikur varð heldur betur raunin, bæði lið sýndu sínar bestu hliðar og leikurinn varð algjört augnakonfekt. Spennan var í algleymingi og varð stemningin í Digranesi frábær en fjölmargir lögðu leið sína á leikinn.
Afturelding hafði yfirhöndina í fyrstu hrinu og vann að lokum 25-19 sigur og tók þar með 1-0 forystu. En stelpurnar okkar svöruðu vel fyrir sig og jöfnuðu í 1-1 með 21-25 sigri í annarri hrinu. Allt leit út fyrir að KA myndi einnig taka þriðju hrinu en eftir að hafa leitt alla hrinuna tókst Aftureldingu að snúa stöðunni sér í vil og vinna með minnsta mun, 25-23 og ná þar mikilvægri 2-1 forystu í leiknum.
En stelpurnar okkar hafa sýnt það margoft að þær gefast aldrei upp og þær sýndu enn og aftur frábæran karakter þrátt fyrir að vera með bakið uppvið vegg. Þær unnu sanngjarnan 21-25 sigur í fjórðu hrinu og knúðu þar með fram oddahrinu.
Jafnt var á með liðunum í upphafi oddahrinunnar en þegar leið á keyrðu stelpurnar hreinlega yfir Mosfellinga og unnu að lokum 11-15 sigur og þar með 2-3 samtals.
Það var algjörlega frábært að fylgjast með stelpunum í leiknum, þær héldu alltaf áfram og eru þegar upp er staðið verðskuldaðir Kjörísbikarmeistarar. Einnig verður að hrósa liði Aftureldingar en leikurinn mun fara í sögurnar sem einn besti blakleikur sögunnar.
Tea Andric skoraði 28 stig og var stigahæst á vellinum, Paula del Olmo Gomez gerði 22 stig. Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir gerði 7 stig en þar af voru 6 ásar. Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir gerði 6 stig, Jóna Margrét Arnarsdóttir 5 og þær Nera Mateljan og Heiðbrá Björgvinsdóttir gerðu 2 stig hvor.
En maður leiksins var Valdís Kapitola Þorvarðardóttir sem leikur libero í liðinu. Það segir ýmislegt um frammistöðu Valdísar í leiknum að hún hafi verið valin maður leiksins en ekki er vitað til þess að libero hafi áður verið valinn besti leikmaður úrslitaleiksins. Valdís átti meðal annars 60% móttöku sem eru tölur sem sjást varla í kvennablaki.
Framundan eru fleiri stórleikir en á sunnudaginn leika stelpurnar lokaleik sinn í úrvalsdeildinni þegar þær taka á móti HK en með því að ná stigi í leiknum tryggja stelpurnar sér Deildarmeistaratitilinn. Í kjölfarið hefst svo úrslitakeppnin þar sem barist er um Íslandsmeistaratitilinn og ljóst að okkar magnaða lið ætlar sér að endurtaka leikinn frá árinu 2019 er stelpurnar urðu þrefaldir meistarar.