Flýtilyklar
Flottur árangur á Íslandsmóti yngriflokka
Um helgina fór fram síðari hluti Íslandsmóts U14 og U16 í blaki en mótið fór fram á Neskaupstað. Mikil aukning iðkenda hefur átt sér stað hjá Blakdeild KA að undanförnu og tefldi KA fram sex liðum á mótinu og er afar gaman að sjá kraftinn í starfi yngriflokka í blakinu hjá okkur.
Stelpurnar í U14 áttu frábært mót, töpuðu aðeins einum leik og enduðu svo samanlagt í 2. sæti á Íslandsmótinu.
Þá sýndi KA2 einnig flotta takta á mótinu og geta stelpurnar verið ansi ánægðar með veturinn, þær hafa bætt sig gríðarlega og spennandi að fylgjast áfram með framgöngu þeirra.
Strákarnir í U14 stóðu sig frábærlega um helgina, töpuðu aðeins einum leik og sýndu flotta takta. KA endaði að lokum í 3. sæti Íslandsmótsins þegar árangur vetrarins er lagður saman.
Stelpurnar í U16 liði KA enduðu í 3. sæti á mótinu um helgina og enda samanlagt í 4. sæti á Íslandsmótinu.
KA2 í flokki U16 kvenna stóð fyrir sínu og geta stelpurnar verið ánægðar með sitt framlag í vetur en þær bættu árangur sinn frá fyrra móti vetrarins.
Strákarnir í U16 liði KA bættu sig gríðarlega frá fyrra móti vetrarins og lögðu meðal annars Íslandsmeistarana að velli. Þeir enduðu að lokum samanlagt í 4. sæti á Íslandsmótinu en framfarirnar gríðarlegar í vetur hjá liðinu.