Flýtilyklar
Brons á Smáþjóðaleikunum hjá stelpunum
Blaklandsliðin luku leik á Smáþjóðaleikunum í dag, stelpurnar mættu gestgjöfunum í Svartfjallalandi sem þurftu sigur til að tryggja sigur á mótinu. Stelpurnar þurftu hinsvegar sigur til að halda í vonina um silfurverðlaun á mótinu.
Svartfjallaland er með gríðarlega sterkt lið og því ljóst að við ramman reip yrði að draga. Íslenska liðið gerði þó vel í að veita heimaliðinu mikla mótspyrnu en það dugði ekki til og 0-3 tap varð niðurstaðan. Stelpurnar enduðu því í 3. sæti á mótinu og fara með heim með bronsið sem er frábær árangur.
Gígja Guðnadóttir, Helena Kristín Gunnarsdóttir og Hulda Elma Eysteinsdóttir voru fulltrúar KA í liðinu og léku þær allar stórt hlutverk á mótinu auk þess sem Unnur Árnadóttir var í liðinu. Stelpurnar hófu mótið á því að tapa 0-3 gegn Kýpur sem endaði í 2. sæti á mótinu en fylgdu því eftir með þremur sigrum í röð.
Fyrst vannst 3-0 sigur á San Marínó áður en stelpurnar sýndu frábæran karakter með því að snúa 0-2 stöðu gegn Lúxemborg yfir í 3-2 sigur. Því næst lá lið Liechtenstein í valnum þar sem Ísland vann 3-0 sigur.
Karlarnir áttu ekki jafn góðu gengi að fagna þrátt fyrir að liðið hafi á köflum spilað flott blak. Strákarnir gerðu vel gegn sterku liði Svartfjallalands með því að vinna hrinu en á endanum tapaðist leikurinn 1-3. Næsti leikur var gegn San Marínó þar sem strákarnir náðu ekki alveg að fylgja á eftir góðri frammistöðu gegn Svartfjallalandi og aftur þurfti liðið að sætta sig 1-3 tap.
Enn þurfti liðið að sætta sig við 1-3 tap er strákarnir mættu Lúxemborg, þá var komið að leik gegn Mónakó en bæði lið höfðu tapað öllum sínum leikjum. Ísland byrjaði frábærlega og vann fyrstu hrinuna af öryggi, það var hinsvegar ekki nóg og tapaðist leikurinn á endanum 1-3.
Lokaleikurinn var svo gegn Kýpur og tapaðist hann 0-3, strákarnir þurftu því að sætta sig við að enda mótið án sigurs. Alexander Arnar Þórisson og Filip Pawel Szewczyk voru fulltrúar KA í liðinu en í hópnum voru einnig Ævarr Freyr Birgisson, Kristján Valdimarsson og Hafsteinn Valdimarsson.